Sunnudaginn 11. júní n.k. fara hátíðarhöld Sjómannadagsins fram venju samkvæmt. Sjómannadagurinn er lögbundinn frídagur sjómanna sem haldinn er fyrsta sunnudag júní mánaðar, nema þegar Hvítasunnu ber uppá sama dag en þá færist hann viku síðar.

Eins og undanfarin ár er Sjómannadagurinn hluti af borgarhátíðinni „Hátíð hafsins“, sem fer fram daganna 10. – 11. júní  n.k. á Grandagarði í Reykjavík. Hátíð hafsins er myndarleg fjölskylduhátíð sem hefur það markmið að bjóða fjölskyldufólk velkomið á hafnasvæðið til að kynnast störfum sjómanna og mikilvægi hafsins í lífsbaráttu Íslendinga.  Sjá dagskrá á heimsíðunni  www.hatidhafsins.is

Sjómannadaginn er nú haldinn í áttugasta skiptið, en hátíðarhöldin voru upphaflega skipulögð af sjómönnum um land allt að frumkvæði Henrys A. Hálfdanarsonar og fleiri sem stofnuðu Sjómannadagsráð þann 25. nóv. árið 1937. Fyrst var haldið uppá Sjómannadaginn þann 6. júní árið 1938 og alla tíð frá upphafi hefur RUV jafnframt sent beint út frá hátíðardagskrá Sjómannadagsins. Auk þess gefur Sjómannadagsráð út Sjómannadagsblaðið og verður 80. árgangur þess nú gefinn út. Alþingi setti lög um sjómannadag þann 26. mars 1987.

Pin It on Pinterest

Share This