Örnefnaskrá

Hraunkot

Landamerki jarðarinnar eru þessi:

Að norðanverðu úr Arnarhreysi, sem er hornmark, sjónhending til austurs, um þúfu á vestri brúninni við Borgardal í þúfu á Hryggjum fyrir norðan Stekkjarhraun og áframhaldandi bein stefna í þúfu fyrir sunnan Krók við Höskuldslæk gagnvart vesturhorni á Stóruborgartungusporði; svo ræðu Höskuldslækur til Torfavaðs, þar norður af skal vörðu upp setja, úr þeirri vörðu til úthánorðurs sjónhending um þúfu á Löngumýrarhæð, um vörðu í hrauninu í sömu stefnu beint í upphlaðna vörðu á Fossleiti; þaðan til austlandnorðurs í áðurnefnt Arnarhreysi. (Hraunkoti, 2.júní 1885).

 

Bræðurnir Einar Sigurjónsson (f. 1917) og Gunnar Sigurjónsson (f. 1929) á Selfossi sem áttu heima í Hraunkoti frá 1923 – 1944) gáfu upp örnefni með hjálp loftmyndar 6. Desember 2002. Foreldrar þeirra voru aðfluttir. (Grímsnes II (2002), 420-421). Einar lést janúar 2003 en Gunnar fór yfir nafnsetningu á kort og örnefnaskrána 31. Janúar 2003.

 

Landmerkin eru eins og segir í landamerkjalýsingunni frá Fossleiti (1), sem er varða á hæð og hornmark, þaðan nærri Gullhól (2), þar sem var gömul fjárhústóft. (Mörkin eru um 100 m frá henni, þar sem ekki mátti byggja nær mörkum en það). Síðan eru mörkin yfir Löngumýrarhrygg (3) (=”Löngumýrarhæð” (4) í landamerkjalýsingu) í Löngumýrartjarnir (5) vestast í Löngumýri (6) og í Torfavað (7) og er klettur við það. Frá Fossleiti er línan síðan aftur um Árnahreysi (8) (=”Hólahellir” (9)) um Borgardal (10) og Borgardalsbrún (11) í Dýjakróka (12) við Höskuldslæk (13), sem síðan ræður að Torfavaði. Gömul ferðamannagata lá eftir hraununum milli Fossleitis og Árnahreysis frá Álftavatni og austur um. Fyrir allmörgum árum var mörkum breytt þar sem Vaðnesbóndi taldi að Torfavað væri það vað sem nefnt er Ferðamannavað (14) á Höskuldslæk á Smáholtum í Arnarbælislandi og tilheyrir því geiri af Hraunkotslandi sem áður var, nú Vaðnesi og má sjá þess merki á loftmynd.

 

Næst er að tala um Brekkur (15) sem liggja alla leið út undir Flatahraun (16). Nef (17) er klettur í brúninni, syðst í Brekkunum. Löngumýrarkrókur (18) er vik við Brekkurnar. Tröllhóll (19) er hár hóll með grænni þúfu á og Djúpalaut (20) ker í hraunið þar norðaustur af. Harðivöllur (21) er smávegis valllendi suðvestur af Brekkum. Tvenn beitarhús voru með nokkru millibili á milli bæjar og Fossleitis.

 

Heima við bæ er Stöðulhóll (22) þar sem nú er stór flaggstöng. Sjónarhóll (23) er þar sem vatnsgeymirinn er og Nátthagi (24) var norðaustur af Lindarbrekkum (25) en Lindin (26) var neðst í brekkunum. Í Hænsnalaut (27), austur af gamla túninu, voru á árunum 1923-44 höfð hænsni að sumri til þess að þau færu ekki í kartöflugarðinn.

 

Flatholt (28) er í Stekkjarmýri (29) og þar er Stekkjarmýrarkrókur (30), einnig Stekkjartún (31) og Stekkjartúnsbrekkur (32). Köldulind (33) (=”Kaldalind)” er í Selheiði nærri Höskuldslæk, og þar er Köldulindarkrókur (34). Köldulind er aðalvatnsból sumarbústaðarhverfisins í Stekkjarhrauni (35) sem allt nefnist Hraunborgir (36). Grænhóll (37) er vestur af Stekkjartúni. Þar norður af er Tröllkarl (38). Það er svartur klettur torfulaus inni í sumarhúsahverfinu. Smiðsnes (39) var tómthúsbýli á nesi við Höskuldslæk í Selheiði (40). Nýbýlið Hraun var byggt við Kiðjabergsveg 1945 (sjá Grímsnes 2002, 425)

 

Sunnan við Höskuldslæk voru Engjarnar (41) sem afmörkuðust af skurði sem lá upp frá Fjárbörðum (42), sem voru á móti Smiðsnesi, upp í Langholt annars vegar og Svínakeldu (43) og skurði upp frá henni upp í Langholt hins vegar. Hraunkot átti þannig part í Langholti sem Arnarbæli, Mýrarkot og Göltur áttu líka. Barðið (44) var austurkanturinn á engjunum, smáblettur sem var auðn, þ.e. gróðulaus. Selið (45), grænn hóll, var vestast í þeim. Á milli var Ennið (46) (Engjaennið (47)). Fossinn (48) í Höskuldslæk er við Svínakeldunes. Ágúst Jónsson rafvirki, sem byggði Hraun, keypti nesið og ætlaði að virkja fossinn. Svínakelda átti upptök nyrst í Stóraslakka (í Arnarbælislandi). Kaldalækjarhraun (49) er á milli Löngumýrar og Höskuldslækjar og er einnig í Arnarbælislandi.

 

Vöðin á Höskuldslæk voru þessi: Móvað (50) við mógrarfirnar á móti Svínakeldunesi. Galtarvað (51) á móti Flatholti. Arnarbælisvað 52) (=”Kirkjuvað” (53)) var á leið Arnarbælismanna til kirkju að Klausturhólum. Þá er Ferðamannavað sem áður nefnt. Laxahylur (54) er djúpur hylur um 100 m vestan við Smáholtin. Síðast er þá áður nefnt Torfavað.

 

Svavar Sigmundsson skráði í janúar og febrúar 2003

Birt með góðfúslegu leyfi Örnefnastofnunar, Árnessýslu, Grímsnesahreppi 2011

Pin It on Pinterest

Share This