Lög Sjómannadagsráðs

I. kafli – Nafn ráðsins, félagssvæði og tilgangur
  1. grein

Stéttarfélög sjómanna á höfuðborgarsvæðinu mynda með sér fulltrúaráð. Nafn þess er Sjómannadagsráð.

Heimili og varnarþing Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess er í Reykjavík.

    1. grein

a) Sjómannadagsráð annast hátíðahöld Sjómannadagsins á hverju ári. Við undirbúning og framkvæmd Sjómannadagsins skulu m.a. eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi:

  1. Að stuðla að því að Sjómannadagurinn skipi verðugan sess í íslensku þjóðlífi.
  2. Að efla samhug meðal sjómanna, hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar og stuðla að nánu samstarfi þeirra.
  3. Að heiðra minningu látinna sjómanna.
  4. Að minnast þeirra sjómanna sérstaklega sem látist hafa við störf sín.
  5. Að heiðra fyrir björgun mannslífa og farsæl félags- og sjómannsstörf.
  6. Að kynna þjóðinni áhættusöm störf sjómanna og mikilvægi starfanna í þágu þjóðfélagsins.

 

b) Sjómannadagsráð hefur ennfremur m.a. eftirfarandi höfuðmarkmið í velferðarmálum sjómannastéttarinnar.

  1. Að afla fjár til þess að reisa, kaupa og/eða reka dvalarheimili, hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöðvar, endurhæfingaraðstöðu, þjónustu- og öryggisíbúðir með leigufyrirkomulagi, einkum fyrir eldri sjómenn og eftirlifandi maka þeirra.
  2. Að taka að sér heimahjúkrun.
  3. Að þjónusta íbúa í íbúðum á vegum Sjómannadagsráðs.
  4. Að stuðla að alhliða orlofsstarfsemi, einkum fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra, svo og fyrir starfsmenn fyrirtækja og dótturfélaga Sjómannadagsráðs.
  5. Að beita sér í öryggis og velferðarmálum sjómanna.
  6. Að beita áhrifum sínum gagnvart opinberum aðilum svo markmið Sjómannadagsráðs nái sem best fram að ganga.
II. kafli–Aðild stéttarfélaga að Sjómannadagsráði, réttindi og kosning fulltrúa
  1. grein

Aðildarfélög að Sjómannadagsráði eru stéttarfélög sjómanna á félagssvæði þess, sbr. 1. gr.
Stéttarfélag sjómanna sem vill gerast aðili að Sjómannadagsráði, skal senda skriflegt erindi þess efnis til stjórnar Sjómannadagsráðs. Stjórn Sjómannadagsráðs leggur umsóknina, ásamt tillögu sinni, fyrir aðalfund til umfjöllunar og afgreiðslu.

Félag, sem vill hætta aðild að Sjómannadagsráði, skal senda stjórn Sjómannadagsráðs skriflega tilkynningu um ákvörðun félagsins þar um. Frá þeim tíma, er slík tilkynning berst með sannanlegum hætti, er félagið ekki aðildarfélag að Sjómannadagsráði.

Ef aðildarfélag sendir ekki fulltrúa á aðalfund Sjómannadagsráðs í þrjú ár samfleytt, ber að líta svo á að félagið hafi sagt sig úr Sjómannadagsráði og tekur úrsögnin gildi frá síðasta aðalfundi sem ekki var sóttur.

Hætti félag aðild að Sjómannadagsráði samkvæmt 3. eða 4. mgr. þessarar greinar, eða með einhverjum öðrum hætti, á það ekki tilkall til hlutdeildar í eignum Sjómannadagsráðs, né heldur til þeirra réttinda sem Sjómannadagsráði og stjórn þess eru fengin með lögum þessum eða samkvæmt öðru umboði.

Aðildarfélög að Sjómannadagsráði bera ekki ábyrgð á þeim skuldbindingum eða samningum sem Sjómannadagsráð stofnar til.

4. grein

Sjómannadagsráð skal skipað 34 fulltrúum aðildarfélaga sinna, sbr. 1. mgr. 3. gr., og skulu fulltrúarnir eiga lögheimili á félagssvæði Sjómannadagsráðs.

Fjöldi aðalfulltrúa í Sjómannadagsráði skal vera með eftirfarandi hætti.

Félag skipstjórnarmanna – 9 fulltrúar
VM félag vélstjóra og málmtæknimanna  -9 fulltrúar
Sjómannafélag Íslands – 16 fulltrúar

Komi til sameiningar aðildarfélaga, aðildarfélag segi sig úr Sjómannadagsráði eða ef aðildarfélag verður lagt niður breytist ekki heildartala fulltrúa í Sjómannadagsráði. Í þeim tilvikum skal leitast við að fulltrúafjöldi þeirra færist til aðildarfélaga, sem eftir eru með tilliti til hlutfalls stöðugilda hvers félags á sjó sem eru með lögheimili á félagssvæðinu.

Sjómannadagsráð skal skipað 34 fulltrúum aðildarfélaga sinna, sbr. 1. mgr. 3. gr., og skulu fulltrúarnir eiga lögheimili á félagssvæði Sjómannadagsráðs.

  1. grein

Kjör fulltrúa og jafnmargra varafulltrúa fer fram í viðkomandi aðildarfélagi Sjómannadagsráðs, samkvæmt 3. grein og skulu þeir kjörnir til þriggja ára. Kjörbréf fulltrúa með nafni, kennitölu, lögheimili, síma og netfangi, ásamt kjörtímabili skal sent stjórn Sjómannadagsráðs fyrir 1. mars, það ár sem kjör fulltrúa fer fram.

Kjörbréfi fulltrúa verður ekki breytt á kjörtímabilinu.

III. kafli – Aðalfundur, haustfundur, aukafundir og nefndakjör
  1. grein

Aðalfundur hefur í öllum efnum æðsta vald í málum Sjómannadagsráðs: sjá þó ákvæði VI. kafla laga þessara um slit á Sjómannadagsráði.

Aðalfund Sjómannadagsráðs skal halda í apríl eða maí ár hvert. Hann skal boða bréflega með minnst þriggja vikna fyrirvara. Heimilt er að boða til fundarins með tölvupósti.

Eigi síðar en viku fyrir aðalfund skal kjörnum fulltrúum aðildarfélaga og formönnum aðildarfélaga send öll fundargögn, svo sem skýrslu stjórnar, endurskoðaða reikninga Sjómannadagsráðs fyrir liðið starfsár, upplýsingar um framkomin framboð, tillögur að lagabreytingum og aðrar tillögur sem munu liggja fyrir fundinum. Heimilt er að senda fundargögn með tölvupósti.

Tillögur frá öðrum en stjórn Sjómannadagsráðs, sem leggja á fyrir aðalfund, skulu hafa borist stjórninni skriflega eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundinn.

Öllum fundum í Sjómannadagsráði skal stjórna samkvæmt almennum fundarsköpum og lögum þessum. Í atkvæðagreiðslum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum, nema lög þessi ákveði annað. Ef atkvæði falla jafnt þá telst tillaga felld.

  1. grein

Á aðalfundi eiga rétt til setu kjörnir fulltrúar sbr. 4. gr ásamt endurskoðendum Sjómannadagsráðs. Þá skulu forstjórar og framkvæmdastjórar fyrirtækja Sjómannadagsráðs eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi um skýrslu stjórnar og reikninga.

Atkvæðisrétt hafa kjörnir fulltrúar eða varamenn í forföllum aðalfulltrúa.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Framsöguræður, skýrslur og umræður skulu hljóðritaðar og varðveittar. Fundarritari skal þó rita fundargerð á hefðbundinn hátt. Fundarstjóri og fundarritari skulu ganga frá fundargerð og undirrita.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Fundarsetning.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Álit kjörbréfanefndar og afgreiðsla kjörbréfa.
  4. Skýrsla stjórnar, forstjóra/framkvæmdastjóra fyrirtækja Sjómannadagsráðs og reikningar. Umræður og atkvæðagreiðsla um framlagða reikninga.
  5. Tillögur að lagabreytingum, umræður og atkvæðagreiðsla.
  6. Kosning stjórnar og endurskoðenda samkvæmt 8. gr.
  7. Kosning nefnda.
  8. Tillögur og ályktanir, sem borist hafa með lögmætum fyrirvara.
  9. Önnur mál.
  10. Fundarslit.

 

  1. grein

Stjórnin skal skipuð fimm mönnum sem kosnir skulu á aðalfundi til þriggja ára í senn. Í stjórn skulu sitja formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og varagjaldkeri. Varamenn skulu vera þrír, kosnir til þriggja ára í senn. Á aðalfundum skal kosningu háttað þannig að eitt árið er kosinn formaður Sjómannadagsráðs, næsta ár eru kosnir gjaldkeri og varaformaður og þriðja árið eru kosnir ritari og varagjaldkeri. Á hverjum aðalfundi skal kjósa einn varamann. Sá varamaður sem lengst hefur setið í varastjórn skal vera fyrsti varamaður og þannig koll af kolli. Þurfi að kjósa fleiri en einn varamann á sama aðalfundi skal kjósa eftir atvikum fyrsta, annan og þriðja varamann.

 Falli aðalmaður frá, missi hann kjörgengi sitt eða láti hann af störfum af öðrum ástæðum tekur fyrsti varamaður sæti í stjórninni til næsta aðalfundar. Skal þá kosinn nýr stjórnarmaður í stað þess sem lét af störfum og skal kjörtímabili hans ljúka á sama tíma og þess stjórnarmanns sem lét af störfum.

 Framboð til stjórnar og varamanna samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar og tveggja endurskoðenda til eins árs og tveggja til vara, skulu berast stjórn Sjómannadagsráðs með skriflegum hætti minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.

 Kjörgengir til stjórnarstarfa eru kjörnir fulltrúar og varafulltrúar í Sjómannadagsráði. Framkvæmdastjórar fyrirtækja Sjómannadagsráðs skulu ekki sitja í stjórn Sjómannadagsráðs. Þó skal heimilt vegna sérstakra aðstæðna, t.d. veikinda, að stjórnarmenn sinni þessum störfum tímabundið.

  1. grein

Á aðalfundi skal kosið í skipulagsnefnd Sjómannadagsins til eins árs í senn.
Skipulagsnefnd skal skipuð fimm mönnum. Verkefni skipulagsnefndar er að gera tillögur og sjá um framkvæmdir á skemmtunum, útihátíðarhöldum og skipulagi merkja og blaðasölu á Sjómannadaginn, í samráði við framkvæmdastjóra Sjómannadagsins og með samþykki stjórnar Sjómannadagsráðs.

 Á haustfundi er kosin ritnefnd til eins árs í senn skipuð þremur mönnum. Ritnefnd sér um útgáfu Sjómannadagsblaðsins og annarra rita sem kunna að vera gefin út á vegum Sjómannadagsráðs.

 Á haustfundi eru kosnir þrír menn í kjörbréfanefnd sem skoðar kjörbréf fulltrúa og leggur þau fyrir aðalfund.

 Heimilt er á aðalfundi og haustfundi að kjósa starfsnefndir í ákveðin mál.

 Í starfsnefndir eru allir kjörgengir sem eru félagsmenn í aðildarfélögum Sjómannadagsráðs og auk þess sem heimilt er að kalla til fólk með sérþekkingu.

 Stjórn Sjómannadagsráðs sér um að kalla nefndirnar saman til fyrsta fundar. Hafi ekki verið tilnefndur formaður, skulu nefndarmenn kjósa sér formann og skipta með sér verkum, eftir því sem nauðsynlegt reynist. Geta skal í fundargerð allra ákvarðana sem teknar eru á nefndarfundum.

  1. grein

Haustfundur skal haldinn í nóvember ár hvert. Á haustfundi eiga rétt til setu kjörnir fulltrúar sbr. 4. gr. Forstjórar og framkvæmdastjórar fyrirtækja Sjómannadagsráðs sitja ekki fundinn nema þeir hafi sérstaklega verið kvaddir til. Til fundarins skal boðað bréflega með sjö daga fyrirvara. Heimilt er að boða til fundarins með tölvupósti. Haustfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. 

 Dagskrá haustfundar:

  1. Formaður setur fund og stjórnar honum, fundarritari er ritari stjórnar.
  2. Skýrsla stjórnar um starfið frá aðalfundi.
  3. Skýrsla um hátíðarhöld Sjómannadagsins.
  4. Tillögur og ályktanir.
  5. Kjör þriggja manna í kjörbréfanefnd.
  6. Kjör þriggja manna í ritnefnd.
  7. Önnur mál.

 Á haustfundi er heimilt að taka til afgreiðslu tillögur og ákvarðanir um fjárfestingar, framkvæmdir o.fl. sem ekki geta beðið næsta aðalfundar.

  1. grein

Stjórn Sjómannadagsráðs getur boðað til aukafundar í Sjómannadagsráði þegar hún telur þess þörf. Skylt er að boða til aukafundar ef minnst tíu fulltrúar í Sjómannadagsráði krefjast þess, enda sé fundarefni tilgreint. Skal sú krafa vera skrifleg og berast formanni með sannanlegum hætti.

Á aukafundi er aðeins fjallað um þau málefni sem eru tilefni fundarboðunar.

 Fundi samkvæmt 1. mgr. skal boða bréflega með a.m.k. sjö daga fyrirvara og skal fundarefnis getið í fundarboði. Heimilt er að boða til fundarins með tölvupósti. Fundir þessir eru lögmætir ef meira en helmingur fulltrúa mætir til fundarins.

IV. Kafli - Stjórn Sjómannadagsráðs og störf, fjárvarsla, stjórnarlaun o.fl.
  1. grein

Stjórnin fer með yfirstjórn Sjómannadagsráðs milli aðalfunda. Stjórninni ber í starfi sínu að fylgja lögum Sjómannadagsráðs og fundarsamþykktum.

Stjórn Sjómannadagsráðs skal í hvívetna gæta hagsmuna Sjómannadagsráðs og koma fram fyrir hönd þess, m.a. í öllum viðræðum og samningum.

Meirihluti stjórnar Sjómannadagsráðs skuldbindur Sjómannadagsráð.

Stjórnin skal hafa eftirlit með starfsemi Sjómannadagsráðs og sjá um að skipulag og bókhald sé ætíð í góðu horfi og í samræmi við lög og samþykktir. Þá skal stjórnin gæta þess að meðferð fjármuna Sjómannadagsráðs sé í samræmi við ákvarðanir funda Sjómannadagsráðs.

Stjórnarfundur er því aðeins lögmætur þegar meirihluti stjórnar er mættur. Séu aðalmenn forfallaðir skal boða varamenn í þeirri röð sem þeir hafa hlotið kosningu á aðalfundi. Heimilt skal að halda stjórnarfundi með aðstoð fjarfundabúnaðar.

Stjórnin skal stuðla að því að allar eignir Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess, þar með talið gjafir og listaverk skulu skráðar í þar til gerða bók sem skal varðveitt með öruggum hætti. Þá skal stjórnin sjá til þess að saga Sjómannadagsráðs sé skrásett og varðveitt.

Þegar stjórnin hefur til umfjöllunar mikilvæg mál, til dæmis stærri fjárfestingar, byggingaframkvæmdir, sölu á eignum og fasteignum, eða miklum og fjárfrekum breytingum innanhúss, þ.á m. breytingum á starfsemi fyrirtækja o.fl., skal hún leita heimildar Sjómannadagsráðs áður en ákvörðun er tekin.

Stjórnin fer með yfirstjórn Hrafnistuheimilanna og allra annarra fyrirtækja Sjómannadagsráðs og fer með úrskurðarvald í öllum málum er þær varða milli aðalfunda.

Stjórnin ákveður hverjir og hve margir sitja í stjórnum fyrirtækja Sjómannadagsráðs og fer með atkvæði þess á hluthafafundi. Stjórnin ræður stjórnendur að fyrirtækjum Sjómannadagsráðs í samráði við stjórnir þeirra.

Stjórnin skipar þriggja manna kjaranefnd sem hefur yfirumsjón með starfskjörum starfsmanna sem ekki falla beint undir ákvæði kjarasamninga stéttarfélaga. Formaður stjórnar Sjómannadagsráðs skal vera formaður nefndarinnar. Kjaranefndin gerir skriflega samninga við starfsmenn þessa, þar sem fram kemur að samþykkt stjórnar Sjómannadagsráðs þarf fyrir öllum stærri framkvæmdum og fjárfestingum sem ekki falla undir daglegan rekstur.

Stjórn Sjómannadagsráðs skal halda fund a.m.k. einu sinni á ári með aðalstjórnendum fyrirtækja og dótturfyrirtækja. Stjórnin heldur fundargerðarbók um meginmál þessara funda sem og þau málefni sem falla undir 7., 8. og 9. mgr. þessarar greinar.

Formaður Sjómannadagsráðs boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Honum er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. tveir stjórnarmenn eftir því.

Formaður er talsmaður Sjómannadagsráðs. Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

Ritari ber ábyrgð á því að fundargerðabækur séu haldnar og færðar séu í þær allar fundargerðir og lagabreytingar.

Fundargerðir skulu undirritaðar af þeim stjórnarmönnum sem fund sitja.

Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum Sjómannadagsráðs eftir nánari ákvörðun stjórnar.

  1. grein

Eignir Sjómannadagsráðs eru: Allar eignir sem skráðar hafa verið á Sjómannadaginn, Fulltrúaráð Sjómannadagsráðs í Reykjavík og Hafnarfirði, hvort sem um er að ræða þinglýstar fasteignir, sjóði, vörslusjóði, lausafjármuni, rekstur eða hvað annað sem um ræðir. Sama á við um eignir sem Sjómannadagsráð kann að eignast. Sjómannadagsráð fer með öll réttindi og skyldur varðandi eignir þessar, og ber að varðveita og ávaxta á sem tryggastan hátt alla sjóði og vörslusjóði. Öllum eignum skal viðhaldið svo sem framast er kostur.

 Fyrirtæki Sjómannadagsráðs, skulu hafa hvert fyrir sig, sjálfstætt reikningshald og aðskilinn fjárhag og bera forstjórar og framkvæmdastjórar hvers fyrirtækis ábyrgð á fjárreiðum þess í umboði stjórnar Sjómannadagsráðs.

  1. grein

Stjórnarmenn fá mánaðarlega greidd stjórnarlaun sem skulu vera 50% af lægsta þrepi launaflokka 33 í kjarasamningi Landhelgisgæslu Ísland við stéttarfélög sjómanna, þ.e. Félag skipstjórnarmanna, VM félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannafélags Íslands.

 Fyrir stjórnarsetu í Happdrætti DAS skal fylgja ákvörðun ráðherra um þóknun til happdrættisráðs.

V. Kafli - Lagabreytingar.
  1. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi Sjómannadagsráðs, enda hafi tillögur að lagabreytingum verið sendar fundarmönnum eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Tillögur til lagabreytinga, er koma frá öðrum en stjórn, skulu berast stjórn með skriflegum hætti eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.

 Til þess að lagabreyting nái fram að ganga þarf fundur að vera lögmætur og lagabreyting að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

VI. Kafli - Slit á Sjómannadagsráði.
  1. grein

Ákvörðun um að slíta Sjómannadagsráði verður því aðeins tekin að tillaga þar að lútandi sé samþykkt með atkvæðum allra fundarmanna á tveimur fundum, sem sérstaklega er boðað til í því skyni að fjalla um slíka tillögu. Fundirnir skulu haldnir með a.m.k. eins mánaðar millibili. Rétt til fundarsetu hafa þeir sem eru kjörnir aðalfulltrúar eða varamenn þeirra, samkvæmt lögum þessum. Fundirnir skulu boðaðir með sama hætti og aðalfundur og skal geta þess skýrlega í fundarboði að fundirnir séu haldnir til þess að taka afstöðu til tillögu um að slíta Sjómannadagsráði og ráðstöfun eigna þess. Lögmæti fundanna skal vera sama og aðalfundar.

  1. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Þannig samþykkt á aðalfundi Sjómannadagsráðs 10. maí 2022.

Pin It on Pinterest

Share This