Hraunborgir

Hraunborgir í Grímsnesi (áður Hraunkot) er land í eigu Sjómannadagsráðs með sumarbústöðum og tjaldsvæði. Jörðin, sem er við Kiðjabergsveg, var keypt af Sjómannadagsráði árið 1964 og er u.þ.b. 600 hektarar. Svæðið er mjög vinsælt meðal fjölskyldufólks, starfsmannafélaga og vinahópa. Þar eru haldin fjölmörg ættarmót á ári hverju en í Hraunborgum er sérlega gott útivistarsvæði, bæði fyrir börn og fullorðna.

Á svæðinu er m.a. minigolf, sparkvöllur, níu holu golfvöllur. Stöðugt er unnið að endurbótum á golfvellinum. Þar er líka að finna leiktæki fyrir börn og útsýnisskífu þar sem hægt er að sjá hvernig landið liggur. Þjónustumiðstöðin í Hraunborgum er með sundlaug, þremur heitum pottum og gufubaði. Þar er líka yfirbyggður sólpallur þar sem hægt er að slappa af og grilla. Góð hreinlætisaðstaða er á staðnum ásamt góðu aðgengi fyrir fatlaða.

Á svæðinu eru 243 sumarbústaðir og orlofshús stéttarfélaga sjómanna og annarra félagasamtaka. Félag sumarhúsaeigenda í Hraunborgum heitir Hraunborgarar og sér það um viðburði á vegum félagsins yfir sumartímann, hliðið inn í Hraunborgir, snjómokstur, mold og almennan rekstur félagsins.