Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, skrifaði grein um uppbyggingu hjúkrunarheimila á Íslandi sem birtist á visir.is, Þúsund hjúkrunarrými óskast strax í gær.
Í greininni bendir hann m.a. á að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um 100 á hverju ári næstu fimmtán árin til að mæta vaxandi þörf í breyttu samfélagi og gagnrýnir ríki og sveitarfélög fyrir hægagang þegar kemur að málefnum aldraðra.
„Hlutverk hins opinbera ætti að vera að semja við aðila eins og Sjómannadagsráð til að tryggja að sífellt sé litið til framtíðar og fjölgun hjúkrunarrýma sé í takti við fjölgun í hópi þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.“
Þessum skrifum fylgdi hann síðan eftir með annarri grein á visir.is með yfirskriftinni 125 hjúkrunarrými til reiðu
Þar beinir hann sjónum að lausnum og nauðsyn þess að huga að stærra samhenginu þegar kemur að því að byggja upp þjónustu fyrir aldraða.
„Það er ekki nóg að byggja hjúkrunarheimili eitt og sér án þess að huga að stærra samhengi þjónustu við aldraða. Hjúkrunarheimili þarf að vera hluti af fjölbreyttum lífsgæðakjarna, eins og við sjáum á Sléttuvegi. Þar er ekki aðeins hjúkrunarheimili, heldur einnig dagþjónusta, endurhæfing, hentugar leiguíbúðir fyrir eldri borgara og þjónustumiðstöð full af lífi, viðburðum og félagslegri virkni. Þetta er leiðin sem skilar mestum lífsgæðum og bestri nýtingu fjármuna.“