Á fundi sínum fyrr í dag féllst stjórn Sjómannadagsráðs á beiðni framkvæmdastjóra síns, Sigurðar Garðarssonar, um að láta af störfum. Voru honum jafnframt færðar þakkir fyrir farsælt starf um langt árabil við stjórnvöl þeirrar umfangsmiklu starfsemi sem SDR stendur fyrir, einkum á sviði uppbyggingar hjúkrunarheimila Hrafnistu og reksturs eigna Sjómannadagsráðs og leiguíbúða Naustavarar. Eru Sigurði færðar bestu óskir um velgengni í nýjum viðfangsefnum sínum. Aríel Pétursson, formaður stjórnar Sjómannadagsráðs, mun taka við hlutverki Sigurðar í daglegum rekstri þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.

Sigurður Garðarsson: „Ég kveð þennan vinnustað og framúrskarandi samstarfsfólk á liðnum árum með söknuði en er jafnframt sannfærður um að þetta er rétti tímapunkturinn til þess að söðla um og beina þeirri reynslu og þekkingu sem ég hef öðlast, í nýja farvegi á nýjum slóðum sem mig langar að feta. Sjómannadagsráð sinnir gríðarlega mikilvægu starfi í íslensku samfélagi og ég lít stoltur um öxl yfir farinn veg í stjórnunarhlutverki á því sviði.“

Aríel Pétursson: Sjómannadagsráð sýnir þessari ákvörðun Sigurðar fullan skilning og hefur í samráði við hann ákveðið að starfslokin taki þegar gildi. Það eru miklar nýjar áskoranir í verkefnum okkar og með nýju fólki koma eins og alltaf nýjar hugmyndir og áherslur. Við bjóðum þær einfaldlega velkomnar um leið og við þökkum Sigurði hans vel unnu störf fyrir Sjómannadagsráð í þágu okkar og aldraðs fólks á Íslandi.“

Sjómannadagsráð rekur starfsemi sína á ríflega 100 þúsund fermetrum í fimm sveitarfélögum. Íbúar á Hrafnistuheimilunum eru um 800 talsins auk um 350 annarra íbúa í leiguíbúðum SDR og talsverðs fólks í eigin íbúðum í nágrenni þjónustukjarnanna. Félagið veitir um 1.700 manns atvinnu og veltir ríflega 13 milljörðum króna á ári.

Pin It on Pinterest

Share This