Lífsgæðakjarnar DAS

Lífsgæðakjarni DAS er hugtak sem nær yfir húsnæði og þjónustu sem eldra fólk hefur aðgang að. Kjarninn samanstendur af leiguíbúðum, hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð og er samfélag þeirra sem þar búa, starfa og þangað sækja. Starfsemi lífsgæðakjarna DAS hefur það markmið að stuðla að öllu leyti að bættum lífsgæðum eldra fólks.

Hugmyndafræði lífsgæðakjarna DAS er fædd hjá Sjómannadagsráði og hefur verið þar í þróun í áratugi. Grunnhugsunin er sú að eldra fólk hafi virði og eigi að vera virkur hópur samfélagsins. Lífsgæðakjarninn býður því upp á fjölbreytta þjónustu sem stuðlar að heilsueflingu, vellíðan og auknu öryggi eldra fólks. Kjarninn er staðsettur innan bæjarfélags og hvetur með því eldra fólk til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Kjarninn eflir félagsleg samskipti fólks í gegnum fjölbreytta þjónustu og afþreyingu. Þjónustan er í stöðugri þróun út frá þörfum þjónustuþega og unnin í samtali við hagaðila.

Í dæmigerðum lífsgæðakjarna DAS er m.a. að finna:

  • Þjónustumiðstöð
  • Matsal
  • Kaffihús
  • Líkamsræktaraðstöðu
  • Fótaaðgerðarstofu
  • Hárgreiðslustofu
  • Útivistarsvæði
  • Félagsstarf, skipulagt og sjálfssprottið.

Lífsgæðakjarnar DAS

Sléttuvegur

Á Sléttuveginum í Reykjavík er nýjasti lífsgæðakjarni DAS sem tengir saman þjónustumiðstöð, íbúðarhús DAS íbúða á Sléttuvegi og Skógarvegi og svo hjúkrunarheimili Hrafnistu.

Í þjónustumiðstöðinni er m.a. að finna stóran og bjartan matsal með veitingasölu, líkamsrækt, fótaaðgerðarstofu, hárgreiðslustofu, verslun og öflugt félagsstarf.

Hraunvangur

Við Hraunvang í Hafnarfirði er að finna notalegan lífsgæðakjarna DAS inni á hjúkrunarheimili Hrafnistu.

Þar er m.a. að finna tækjasal, fótaaðgerðarstofu, hárgreiðslustofu, sjúkraþjálfun, verslun og einstaklega skemmtilegt félagsstarf. Hraunvangur stendur við hraunjaðarinn. Þar eru fallegar gönguleiðir og stutt í miðbæ Hafnarfjarðar, Víðistaðatún og Hellisgerði.

Boðaþing

Lífsgæðakjarni DAS í Boðaþingi Kópavogi liggur á mörkum bæjar og sveitar og útivistarperlur við Elliðavatn og Heiðmörk eru í næsta nágrenni. Góðir göngustígar liggja um hverfið.

Í kjarnanum er m.a. að finna tækjasal, fótaaðgerðarstofu, hárgreiðslustofu, sjúkraþjálfun, matsal og öflugt félagsstarf, s.s. spila- og leshópa. Þar er einnig skemmtilegur samkomusalur.

Laugarás

Í Laugarási er að finna heimilislegan lífsgæðakjarna DAS inni á hjúkrunarheimili Hrafnistu.

Þar er m.a. að finna tækjasal, verslun, fótaaðgerðarstofu, hárgreiðslustofu og sjúkraþjálfun. Utandyra eru góðir göngustígar og púttvöllur og stutt er að fara í Laugardalinn og Laugardalslaug. Þar er líka að finna einstaklega skemmtilegt félagsstarf.

Mikil lífsgæði eru fólgin í því að hafa aðgang að góðri þjónustu, afþreyingu og skipulögðu félagsstarfi á efri árum. Hér segja íbúar á Sléttuveginum frá lífinu í lífsgæðakjarna DAS.