1937 – 1945

1946 – 1956

1957 – 1967

1968 – 1980

1981 – 1999

2000 – 2024

1937 – 1945

Þann 25.nóvember árið 1937 samþykktu fulltrúar tíu sjómannafélaga í Reykjavík og Hafnarfirði að stofna Sjómannadagssamtökin og að halda sérstakan Sjómannadag einu sinni á ári og fljótlega var ákveðið að byggja dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn. 

Fjöldi manna kom að stofnun og starfsemi Sjómannadagsráðs fyrstu árin en óhætt er að segja sá maður er átti stærri hlut í að koma samtökunum á legg og málefnum þeirra í farveg hafi verið Henry Hálfdansson með óþrjótandi áhuga sínum á félagslegum málefnum stéttarinnar.  

* 1938
Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn 6.júní 1938, á björtum og svölum sumardegi. Fánar voru dregnir að hún á öllum skipum í höfninni. Sala merkja og Sjómannadagsblaðsins hófst um morguninn. Sjómenn söfnuðust saman við Stýrimannaskólann á Öldugötu og þaðan fór skrúðgangan, fánum prýdd, upp á Skólavörðuholtið. Athöfnin fór fram við Leifsstyttuna og mættu um 10 þúsund manns. Síðar fóru hátíðarhöldin fram á hafnarbakkanum þar sem keppt var m.a. í stakkasundi og kappróðri og loks var haldið á Melavöll þar sem keppt var í knattspyrnu og reipitogi. Dagurinn þótti heppnast einstaklega vel.
* 1939 - 1943
Á þessum tíma setti Seinni heimsstyrjöldin mark sitt á líf heimsbyggðarinnar, þ.m.t. líf íslenskra sjómanna. Ákvörðun var tekin um að hefja undirbúning og fjáröflun fyrir byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn en ljóst var að sú vinna yrði umfangsmikil. Óskað var eftir lóð á Laugarnesinu í Reykjavík.
* 1944
Hornsteinn Sjómannaskólans lagður á Sjómannadaginn. Sú bygging hafði verið mikið baráttumál margra fulltrúa í Sjómannadagsráðinu. Athöfnin fór fram við Sjómannaskólann og menn frá Landhelgisgæslunni stóðu vörð kringum ræðupallinn við athöfnina.