1937 – 1945

1946 – 1956

1957 – 1967

1968 – 1980

1981 – 1999

2000 – 2025

1957 – 1967

Tímamót urðu í sögu Sjómannadagsráðs þegar Hrafnista var loksins opnuð eftir langt byggingarferli. Reksturinn fór þó heldur erfiðlega af stað en mikill einhugur var hjá ráðinu að halda ótrauðir áfram. Happdrætti DAS skilaði góðum hagnaði ár hvert en peningarnir fóru að miklu leyti í að klára uppbyggingu á Laugarásbíói. Íslenska ríkið náði að lögfesta 40% greiðslu af hagnaði happdrættisins fyrir Uppbyggingarsjóð aldraðra. Nýir formenn tóku við keflinu af Henry Hálfdanssyni og jörðin Hraunkot í Grímsnesi var keypt.

* 1957
Þann 2.júní þetta ár var dvalarheimilið í Laugarási opnað með mikilli viðhöfn og skýrt Hrafnista. Sigurjón Einarsson varð fyrsti forstjóri Hrafnistu og fimmtán vistmenn fluttu inn í álmu C þann 15.júní. Sýna þurfti mikla útsjónarsemi til að koma rekstrinum í gang. Eldhústækin sem höfðu verið keypt voru komin til landsins en föst hjá heildsalanum þar sem ekki var til peningur til að leysa þau út. Í byggingunni var búið að setja upp bráðabirgðaeldhús, hjúkrunaraðstaðan var ekki tilbúin og engin lyfta í húsinu. Borðsalurinn var notaður sem kvikmyndasalur í fjáröflunarskyni.
* 1958 - 1960
Happdrættið skilaði 4,5 milljóna hagnaði en halli var á rekstri Laugarásbíós sem happdrættið þurfti að greiða eins og hægt var. Ráðherra menntamála óskaði eftir því að fá 20% af tekjum happdrættisins en það vildi ráðið ekki. Ákveðið var að taka inn á heimilið aðra en sjómenn og sjómannskonur, þar sem ekki var næg aðsókn sjómanna, en passað var að hafa alltaf 1-2 rúm í boði fyrir sjómenn. Þann 17.maí 1960 var Laugarásbíó loks vígt með viðhöfn en það skyggði á gleðina að kostnaður við uppbyggingu þess varð meiri en áætlað var. Voru margir stjórnarmenn ósáttir við að ágóði happdrættisins hefði að miklu leyti farið til Laugarásbíós, en ekki í rekstur Hrafnistu. Lífið á Hrafnistu var í mótun. Vistmenn mótmæltu hækkun vistgjalda og deilur voru á milli vistmanns og forstjóra. Ófriður var á heimilinu, m.a. vegna óhóflegrar áfengisneyslu vistmanna.
* 1961
Miklar umbreytingar urðu þetta ár hjá Sjómannadagsráði. Einar Thoroddsen tók við formennsku ráðsins, í stað Henrys Hálfdanssonar sem hafði sinnt formennsku frá stofnun. Vonbrigði voru með rekstur Laugarásbíós, en aðsókn var ekki nógu góð m.a vegna þess að fjölmiðlar héldu úti áróðri gegn því. Astrid Hannesson var ráðin húsmóðir á Hrafnistu.
* 1962
Ný formaður Sjómannadagsráðs var kjörinn, Pétur Sigurðsson, og hann átti eftir að gegna því embætti til ársins 1993. Ríkið fékk sínu fram og samþykkt var að það fengi 40% af ágóða Happadrætti DAS og sú upphæð færi í Byggingarsjóð aldraðra. Henry Hálfdansson fékk æðsta heiðursmerki Sjómannadagsins, gullmerkið, fyrir óeigingjarnt starf í þágu sjómannastéttarinnar. Hans vinna átti stærstan þátt í því hversu öflug Sjómannadagssamtökin voru orðin. Heimilisrekstur Hrafnistu var tekinn fastari tökum og áframhaldandi uppbygging var á hjúkrunarheimilinu.
* 1964
Jörðin Hraunkot í Grímsnesi var keypt. Jörðin átti að vera nýtt til sumardvalar fyrir börn sjómanna en einnig til leigu eða sölu jarða undir sumarhús sjómanna og væntanleg orlofsheimili sjómannastéttarinnar.
* 1967
Afmælisár Hrafnistu. Reksturinn gekk betur vegna margskonar hagræðingar og fjölgun vistmanna sem voru orðnir 360 talsins. Happadrætti DAS hafði að mestu leyti fjármagnað framkvæmdir við Hrafnistu en einnig gjafir frá ýmsum stuðningsmönnum og fyrirtækjum. Meiri friður einkenndi störf Sjómannadagsráðs. Þann 9.nóvember var afhjúpuð stytta af Henry Hálfdanssyni sem nokkrir vinir og velunnarar gáfu Hrafnistu.