1937 – 1945

1946 – 1956

1957 – 1967

1968 – 1980

1981 – 1999

2000 – 2025

1968 – 1980

Meiri friðsæld einkenndi störf Sjómannadagsráðs á þessum tíma, enda voru stærstu ádeiluefnin nú leyst. Ráðist var í að setja upp stóra og umfangsmikla sjávarútvegssýningu í Laugardalshöllinni sem vakti mikla athygli. Uppbygging og framkvæmdir héldu áfram og Hrafnista í Hafnarfirði var reist þrátt fyrir vaxandi óróleika í íslenskum efnahagsmálum.

* 1968
Sjávarútvegssýningin Íslendingar og hafið var opnuð þann 25.maí í Laugardalshöllinni með um 50 sýningarbásum þar sem ríkisstofnanir, bæjarfélög og fyrirtæki tóku þátt og sýndu allt það helsta sem tengdist þessari helstu atvinnugrein þjóðarinnar. Sýningin stóð til 11.júlí. Þetta ár voru íbúðarskálar fluttir á jörðina Hraunkot til að hýsa börn í sumardvöl og starfsfólk. Viðræður hófust um byggingu hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði.
* 1970 - 1972
Árið 1970 var byggingu lokið á síðustu álmu hússins (G-álman) og húsið því fullbyggt. Smíði Jökulgrunnsíbúðanna var í fullum gangi árið 1972. Lóð fékkst undir Hrafnistu í Hafnarfirði. Pétur Sigurðsson, formaður Sjómannadagsráðs, var fremstur í flokki við að halda framkvæmdum við þessa nýju byggingu. Miklar framkvæmdir voru sama ár í Hraunkoti. Jörðin var girt og bygging orlofshúsa hófst. Þetta varð fyrsta óðaverðbólgu árið og það hafði áhrif á öll útgjöld. Henry Hálfdansson, fyrsti formaður Sjómannadagsráðs, lést 8.nóvember 1972. Á myndinni sést Henry veita verðlaun á sjómannadaginn.
* 1977
Hrafnista í Hafnarfirði var vígð á Sjómannadaginn. Pétur Sigurðsson, formaður Sjómannadagsráðs, var ráðinn forstjóri Hrafnistu og forstöðukona var Sigríður A. Jónsdóttir. Happdrætti DAS var fyrsta fyrirtækið hérlendis sem auglýsti í lit í sjónvarpi.
* 1979 - 1980
Ákveðið var að byggja hjúkrunardeild og heilsugæslustöð við Hrafnistu í Hafnarfirði - B-álmuna. Í apríl 1979 voru sett lög um verðtryggingu og raunvexti sem ruglaði allar byggingaráætlanir. Ellimálanefnd var skipuð í apríl og lagt fram frumvarp um heildarskipan öldrunarmála sem var samþykkt á Alþingi. Myndirnar sýna hátíðarhöld á sjómannadaginn 1980.