Happdrætti DAS er í eigu Sjómannadagsráðs og var stofnað árið 1954. Frá upphafi hefur tilgangurinn með rekstri happdrættisins verið að safna fé til uppbyggingar á húsnæði og þjónustu Hrafnistu.
Ákveðið var að stofna til happdrættis á fundi fulltrúarráðs Sjómannadagsins á Hótel Borg 4. apríl 1954 og var stjórn samtakanna falið að snúa sér til stjórnvalda til að fá leyfi. Stjórnvöld tóku einstaklega vel í þessa hugmynd og þá sérstaklega Ólafur Thors forsætisráðherra sem flutti stjórnarfrumvarp um málið stuttu síðar og málið afgreitt samdægurs á Alþingi. Þannig urðu lög um happdrætti Dvalarheimila aldraða sjómanna að veruleika. Fyrsti útdráttur fór fram 3. júlí 1954 og var happdrættinu úthlutað sex bifreiðum af þeim níu sem fluttar voru inn til landsins á þessum skömmtunartímum.
Happdrætti DAS hefur frá upphafi verið mikilvægur máttarstólpi í allri uppbyggingu Hrafnistu. Hagnaðurinn stóð að mestu undir öllum framkvæmdum við Hrafnistu í Reykjavík og Laugarásbíó. Lögum um Happdrætti DAS var breytt 1963 og því gert að greiða 40% af hagnaðinum í Byggingarsjóð aldraðra, sem var notaður í að byggja upp dvalarheimili út um land allt. Stóð þetta í 25 ár og greiddi Happdrætti DAS 900 milljónir á núvirði í sjóðinn.
Á þeim árum sem Happdrætti DAS hefur starfað hefur það greitt milljarða í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Með stuðningi fólksins í landinu með kaupum á miðum í Happdrætti DAS hefur grettistaki verið lyft við að skapa öldruðum áhyggjulaus ævikvöld.