Um Sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð var stofnað af sjómannafélögum í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember 1937. Í fyrstu var tilgangurinn að standa fyrir árlegum sjómannadegi, en mikill stuðningur almennings við samtökin strax í upphafi leiddi fljótlega til þeirrar ákvörðunar (1939) að ráðið skyldi beita sér fyrir byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn (DAS).

Í dag er tilgangur félagins tvíþættur. Annarsvegar að standa að hátíðarhöldum Sjómannadagsins árlega og gefa honum verðugan sess í íslensku þjóðlífi. Hinsvegar felst megin þungi starfseminnir í að veita öldruðum húsaskjól og daglega öldrunarþjónustu. Á vegum félagsins eru átta starfsstöðvar í fimm fimm sveitarfélögum með Hrafnistuheimilum og fjórar með leiguíbúðum Naustavarar. Starfmenn eru um 1500 og húsakostur um 90 þúsund fermetrar. Þjónustuþegar eru vel á annað þúsund.

Velvilji
Til að safna framkvæmdafé var ýmsum nýjum aðferðum beitt, s.s. með merkjasölu, blaðaútgáfu, söfnun áheita, rekstri dýragarðs, kabarett- og kvikmyndasýningum og rekstri Happdrættis DAS, sem hefur frá stofnun, 1954, verið mikilvægasti fjárhagslegi bakhjarl byggingaframkvæmda ásamt veglegum gjöfum frá velunnurum. Velvilji almennings við Sjómannadagsráð og Hrafnistu endurspeglast m.a. í því að oftar en einu sinni hafa einstaklingar arfleitt Sjómannadagsráð að eigum sínum. Þá er ótalinn mikill velvilji félagasamtaka sem gefið hafa ómældar fjárhæðir í formi tækja og búnaðar á Hrafnistuheimilunum.

Framkvæmdir
Er nægt fé hafði safnast hófust framkvæmdir við byggingu Hrafnistu í Laugarási sem tekin var í notkun árið 1957. Laugarásbíó tók til starfa 1960 til að afla enn frekara framkvæmdafjár og ekki síður til að styrkja efnalitla sjómenn til dvalar á Hrafnistu. Árið 1964 keypti Sjómannadagsráð jörðina Hraunkot í Grímsnesi þar sem nú er rekin frístundabyggð með mikilli þjónustu. Á sjómannadaginn 1977 tók Hrafnista í Hafnarfirði til starfa.

Aukin lífsgæði aldraðra
Sjómannadagsráð, undir merkjum dótturfélagsins Naustavarar, hefur frá 1982 staðið að byggingu fjölda leiguíbúða fyrir 60 ára og eldri við Hrafnistuheimilin. Auk þess hefur Hrafnistu verið falinn rekstur hjúkrunarheimila í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Reykjanesbæ. Eru Hrafnistuheimilin átta talsins í fimm sveitarfélögum. Snemma árs 2020 var glæsilegur lífsgæðakjarni við Sléttuveg í Fossvogsdal í Reykjavík tekinn í notkun. Lífsgæðakjarninn samanstendur af hjúkrunarheimili Hrafnistu, þjónustumiðstöð sem Hrafnista rekur fyrir Reykjavíkurborg og leiguíbúðum Naustavarar. Samstarfið við Reykjavíkurborg á Sléttuvegi markar enn ein tímamótin í sögu uppbyggingar Sjómannadagsráðs í þágu bættra lífsgæða aldraðra.

Minnisvarðar
Að frumkvæði Sjómannadagsráðs var minnisvarðinn „Horft til hafs“ reistur á Miðbakka Reykjavíkurhafnar árið 1997 og 2005 risu „Minningaröldur Sjómannadagsins“ í Fossvogskirkjugarði þar sem skráð eru nöfn drukknaðra, týndra sjómanna og annarra sæfarenda að ósk ættingja eða útgerða.

Lítum stolt um öxl
Sjómannadagsráð lítur stolt um öxl fyrir framlag sitt til uppbyggingar á þjónustu við aldraða. Með rekstri leiðandi öldrunarþjónustu vinna fyrirtæki Sjómannadagsráðs ötullega að því að bæta lífsgæði á annað þúsund aldraðra landsmanna sem aldrei hefði orðið að veruleika nema vegna frumkvæðis og atorku sjómannafélaganna, stuðnings velunnara, þátttöku almennings í Happdrætti DAS og framlags dugmikils starfsfólks.

Áfangar í sögu Sjómannadagsráðs

1939 – Samtökin ákveða að byggja dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn. Allar sögur síðan hefur Sjómannadagsráð unnið að uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila fyrir aldraða auk sérhannaðra leiguíbúða fyrir eldra fólk.

1954 – Rekstur flokkahappdrættisins DAS heimilaður með sérstökum lögum frá Alþingi.

1956 – Sjómannadagsráð hóf rekstur kvikmyndahúss í Laugarási.

1957 – Hrafnista, dvalarheimili aldraðra sjómanna, við Laugarás tekur til starfa á sjómannadaginn, 2. júní.

1960 – Nýtt kvikmyndahús, Laugarásbíó, vígt við hlið Hrafnistu í Laugarási.

1964 – Sjómannadagsráð kaupir jörðina Hraunkot í Grímsnes og Grafningshreppi þar sem nú er rekin umfangsmikil orlofsbyggð með tjaldsvæðum, sumarbústöðum í eigu einstaklinga, samtaka og fyrirtækja, golfvelli, sundlaug og fleiri afþreyingarmöguleikum.

1969 – Hafinn rekstur barnaheimilis í Hraunkoti fyrir 50 börn.

1977 – Hrafnista í Hafnarfirði tekur til starfa.

1987 – Alþingi setur lög um að árlega skuli haldinn sjómannadagur, almennur frídagur sjómanna sem jafnframt skuli vera almennur fánadagur á Íslandi.

2001 – Sjómannadagsráð stofnar íbúðarleigufélagið Naustavör sem byggt hefur um 200 öryggis- og þjónustuíbúðir við Hrafnistuheimilin og sem leigðar eru eldra fólki.

2002 – Hrafnista tekur við rekstri hjúkrunarheimilanna í Víðinesi og á Vífilsstöðum.

2004 – Hrafnista tekur í notkun hjúkrunarálmu með 60 rýmum við Hrafnistu í Laugarási.

2004 – Sjómannadagsráð tekur í notkun 64 leiguíbúðir við Hraunvang 1-3.

2007 – Sjómannadagsráð tekur í notkun 24 leiguíbúðir við Hrafnistu Laugarási.

2010 – Hrafnista í Boðaþingi Kópavogi tekur til starfa.

2010 – 2012 Sjómannadagsráð tekur í notkun 95 leiguíbúðir í Boðaþingi 22-24.

2014 – Hrafnista tekur við rekstri Nesvalla og Hlévangs; hjúkrunarheimila í Reykjanesbæ.

2014 – Sjómannadagsráð tekur í notkun 18 leiguíbúðir Brúnaveg 9.

2017 – Hrafnista tekur við rekstri Ísafoldar í Garðabæ.

2017 – Bygging hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík hefst í samvinnu við Reykjavíkurborg.

2017 – Bygging 140 leiguíbúða Naustavarar við Sléttuveg hefst í lok ársins.

2019 – Hrafnista tekur við rekstri Skógarbæjar.

2020 – Hrafnista á Sléttuvegi tekur til starfa, 60 leiguíbúðir Naustavarar teknar í notkun og Sléttan þjónustumiðstöð hefur starfsemi.

Pin It on Pinterest

Share This