Nýjar DAS íbúðir á Skógarveginum

Sjómannadagsráð afhenti á síðasta ári tvö ný hús með leiguíbúðum á Skógarvegi í Reykjavík. Alls

eru þetta 87 íbúðir í tveimur samtengdum húsum fyrir fólk 65 ára og eldra. Fyrra húsið var

afhent í júlí og það seinna í október og eru bæði húsin tengd lífsgæðakjarnanum Sléttunni þar

sem hægt er að sækja fjölbreytta þjónustu. Húsin eru byggð út frá hugmyndafræði DAS en

kjarninn í þeirri hugmyndafræði er að veita eldra fólk tækifæri til að búa sem lengst heima

hjá sér og njóta lífsgæðanna í nánasta umhverfi. 

Samkvæmt opinberum spám mun hlutfall fólks 67 ára og eldra á Íslandi vera orðið 19% árið

2040, þá um 76.000 talsins. Vaxandi hópur fólks á þessum besta aldri kallar á þróun og

uppbyggingu á byggingum og þjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum og hefur

Sjómannadagsráð starfað lengi með hönnuðum sem hafa mikla þekkingu á þessu sviði. Fyrstu

íbúðirnar voru byggðar árið 2001 og síðan þá hafa nýjar byggingar verið þróaðar hvað varðar

hönnun og skipulag, þar sem hlustað er á þarfir íbúanna og íbúðum breytt í samræmi við þær

þarfir. Íbúðirnar eru t.a.m. mismunandi stórar til að ná til sem flestra en sömu gæði er að

finna alls staðar í efnisvali og innréttingum og aðgengi er alls staðar gott. Huggulegir og

vistlegir gangar tengja saman íbúðakjarna og þjónustumiðstöðvar og eru gönguleiðir hafðar

eins stuttar og hægt er. 

Ör fjölgun í hópi eldra fólks er áskorun um allan heim og kallar á breytingu á viðhorfum og

aðferðum í málefnum þeirra. Hugtakið heilbrigð öldrun hefur því sprottið fram og í því felst

að fólk viðhaldi virkni og færni til að stunda athafnir daglegs lífs á efri árum og líði almennt

vel. Öll uppbygging Sjómannadagsráðs hefur þetta hugtak að leiðarljósi. Þjónustan sem er í

boði í lífsgæðakjarna DAS á Sléttunni styður við að þeir sem nýta sér hana geti búið lengur

heima. Í kjarnanum er hægt að sækja sér félagsskap, borða hollan og fjölbreyttan mat og nýta

sér ýmsa heilsueflandi þjónustu eins og líkamsræktina. Lífið í kjarnanum á að vekja gleði og

vellíðan enda er þessi hluti æviskeiðs okkar sannarlega tíminn til að njóta.

Þröstur Söring, framkvæmdastjóri eignasviðs Sjómannadagsráðs.