Dagskrá sjómannadagsins 2025 var með hefðbundnum hætti. Um morguninn var lagður blómsveigur að Minningaröldunum við Fossvogskirkju og minnismerki um látna sjómenn. Að því loknu var haldið til messu í Dómkirkjunni þar sem Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum flutti predikun og Sr. Elínborg Sturludóttir þjónaði til altaris. Ásgrímur L. Ásgrímsson og Klara Bjartmarz lásu ritningarlestra.
Eftir hádegi var hátíðleg athöfn í Hörpu, undir styrkri stjórn Gerðar G. Bjarklind, þar sem Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs heiðraði sex sjómenn fyrir sín störf. Það voru þeir Sigurbjörn Björnsson, Georg Magnússon, Árni Bjarnason, Ívar Gunnlaugsson, Arngrímur Jónsson og Hafþór Júlíusson. Voru þeim færðar miklar þakkir fyrir sitt framlag. Við athöfnina sáu Karlakórinn Fóstbræður og Lúðrasveit Reykjavíkur um tónlstarflutning. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Jón Frímann Eiríksson skipstjóri á Viðey, fluttu erindi.
Að vanda var mikið fjör allan daginn við höfnina og á Grandagarði þar sem fjölbreytt skemmtun fyrir alla fjölskylduna fór fram. Boðið var upp á andlitsmálningu, furðufiskasýningu, klifurvegg og margt fleira. Brim bauð upp á sjávarréttarsúpu og siglingu með togaranum Viðey, bryggjusprellið var á sínum stað, ásamt fjöldamörgum skemmtiatriðum og fjölbreyttum viðburðum.
Í fyrsta sinn frá upphafi sjómannadagsins var Sjómannadagsblaðið ekki gefið út í prentuðu formi, heldur í hljóði og mynd á heimasíðunni www.sjomannadagurinn.is. Þar má hlusta á Aríel Pétursson ræða við fjölbreyttan hóp fólks í hlaðvarpi sem hefur fengið heitið Sjókastið. Einnig eru fjölmargar áhugaverðar og margvíslegar greinar birtar þar.
Sjómannadagsráð vill senda þakkir til Eventum, Brim, Faxaflóahafna og Rata, sem og til þeirra fjölmörgu komu sem að skipulagi og framkvæmd dagsins.














