Hraunborgir

Jörðin Hraunkot (Hraunborgir) við Kiðjabergsveg í Grímsnes- og Grafningshreppi var keypt af Sjómannadagsráði árið 1964 og er jörðin u.þ.b. 600 hektarar.

Til að mæta þörfum ferðamanna hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu hjólhýsa- og tjaldsvæðis. Góð hreinlætisaðstaða er á staðnum ásamt góðu aðgengi fyrir fatlaða. Svæðið er mjög vinsælt meðal fjölskyldufólks, starfsmannafélaga og vinahópa. Þar eru einnig haldin fjölmörg ættarmót á ári hverju en í Hraunborgum er sérlega gott útivistarsvæði, bæði fyrir börn og fullorðna. Á svæðinu er m.a. minigolf, sparkvöllur, níu holu golfvöllur, leiktæki fyrir börn og útsýnisskífa þar sem hægt er að sjá hvernig landið liggur og læra helstu örnefni nágrennisins.

Þjónustumiðstöðin í Hraunborgum er með sundlaug, þremur heitum pottum og gufubaði. Sundlaugargestir geta notið sumarblíðunnar við góðar aðstæður, hvort sem þeir vilja busla í lauginni eða slaka á í heitu pottunum og gufubaðinu. Þjónustumiðstöðin er með yfirbyggðum sólpalli þar sem hægt er að slappa af og grilla. Þeir sem vilja taka það rólega geta sest niður og haft það notalegt fyrir framan sjónvarpið.

Skemmtilegur 9 holu par 3 golfvöllur er við þjónustumiðstöðina. Stöðugt er unnið að endurbótum á golfvellinum, flatir hafa verið endurnýjaðar og tré gróðursett. Golfvöllurinn hentar vel bæði byrjendum sem og fjölskyldu- og vinahópum. Þá geta kylfingar, sem eru lengra komnir, ekki síður notið góðs af því að spila völlinn og æft sveifluna og stutta spilið.

Um 250 leigulóðir eru skipulagðar fyrir orlofshús stéttarfélaga sjómanna og sumarbústaði einstaklinga. Í dag eru 243 sumarbústaðir og orlofshús stéttarfélaga sjómanna og annarra félagasamtaka. Deiliskipulag á 118 leigulóðum er til og þegar hefur verið ráðstafað úr því deiliskipulagi 45 lóðum. Öllum landsmönnum er frjálst að sækja um þessar sumarbústaðalóðir. Félag sumarhúsaeigenda í Hraunborgum heitir Hraunborgarar og sér það um viðburði á vegum félagsins yfir sumartímann, hliðið inn í Hraunborgir, snjómokstur, mold og almennan rekstur félagsins. 

Pin It on Pinterest

Share This