Enn einn áfanginn í langri sögu Sjómannadagsráðs við uppbyggingu fyrir aldraða átti sér stað í dag þegar skóflustunga var tekin að nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg, en það er hluti af nýju 21 þúsund fermetra öldrunarsetri í Fossvogi. Skóflustunguna tóku þeir Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi formaður Sjómannadagsráðs, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. Athöfnin er táknrænt upphaf verklegra framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu fyrir 99 íbúa, en gert er ráð fyrir að jarðvinna við það hefjist í desember. Fljótlega hefjast einnig framkvæmdir við byggingu þjónustumiðstöðvar, sem Sjómannadagsráð mun eiga og reka, og þriggja 14 þús. fm. fjölbýlishúsa með 140 leiguíbúðum Naustavarar, dótturfyrirtækis Sjómannadagsráðs. Öldrunarsetrið í Fossvogsdal er fjórða verkefnið að þessu tagi sem Sjómannadagsráð hefur ráðist í frá stofnun þess 25. nóvember 1937, fyrir réttum 80 árum. Áður hefur Sjómannadagsráð staðið að sambærilegri uppbyggingu í Laugarási í Reykjavík, Hraunvangi í Hafnarfirði og Boðaþingi í Kópavogi.
Hrein viðbót hjúkrunarrýma
Reykjavíkurborg hefur ritað undir viljayfirlýsingu við Hrafnistu, dótturfyrirtæki Sjómannadagsráðs, um rekstur hjúkrunarheimilisins og verður það sjöunda Hrafnistuheimilið á suðvesturhorni landsins. Þá hefur Reykjavíkurborg leitað til Sjómannadagsráðs um að hafa umsjón með framkvæmdum og stýra hönnun heimilisins innan samnings þess sem er á milli Reykjavíkurborgar og Velferðarráðuneytisins um byggingu hjúkrunarheimilisins. Gert er ráð fyrir að það taki til starfa á síðari hluta árs 2019. Á þeim tímamótum bætast við nærri eitt hundrað langþráð hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu fyrir veika aldraða einstaklinga og má ætla að fjölgunin dragi nokkuð úr álagi á Landspítala háskólasjúkrahúsi þar sem fjöldi aldraðra er tepptur vegna skorts á hjúkrunarrýmum.
Þjónustumiðstöð og leiguíbúðir
Sjómannadagsráð mun byggja, eiga og reka fyrirhugaða þjónustumiðstöð sem samtengd verður Hrafnistuheimilinu og þremur nýjum fjölbýlishúsum með 140 íbúðum Naustavarar sem leigðar verða á almennum markaði fyrir eldra fólk. Áhersla verður lögð á að skapa nokkurskonar miðstöð heilbrigðs lífs, þar sem boðið verður uppá aðgang að fjölbreyttri dagskrá og þjónustu bæði fyrir þá sem vilja bæta við sig færni og þá sem vilja bregðast við minnkandi færi eða heilsu. Reykjavíkurborg mun leigja hluta þjónustumiðstöðvarinnar auk þess sem aðrir sem veita þar sérhæfða þjónustu, svo sem á sviði veitinga, fræðslu, sjúkraþjálfunar, heilsueflingar, afþreyingar og menningar, verða þar einnig með aðstöðu. Í fjölbýlishúsum Naustavarar verða leigðar út íbúðir í nokkrum stærðarflokkum, en algengustu stærðir verða 50 til 70 fermetra en einnig 70-85 m2 hjónaíbúðir auk nokkurra stærri íbúða. Leiguíbúðirnar verða sérhannaðar fyrir eldra fólki sem vill búa sjálfstætt en njóta nálægðar og aðgangs að þeirri þjónustu sem veitt verður á svæðinu, m.a. sérhæfðri þjónustu sem tekur mið af einstaklingsbundinni þörf hvers og eins. Áætlað er að hefja jarðvegsvinnu undir fjölbýlishús leiguíbúðanna fyrir árslok.
Happdrætti DAS
Happdrætti DAS gegnir kjölfestuhlutverki við fjármögnun fyrirhugaðrar uppbyggingar Sjómannadagsráðs eins og happdrættið hefur gert í rúma sex áratugi. Frá stofnun, árið 1954, hefur öllum hagnaði af rekstri happdrættisins verið varið til nýbygginga og viðhalds á Hrafnistuheimilum Sjómannadagsráðs og á síðari árum einnig til annarskonar uppbyggingar í nálægð við Hrafnistuheimilin. Frá upphafi hefur happdrættið lagt Sjómannadagsráði til verulega fjármuni í þessu skyni og mun happdrættið gegna lykilhlutverki í fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda við Sléttuveg, þar sem Sjómannadagsráð heldur áfram vinnu sinni að velferðarmálum og þjónustu við aldraðra eins og það hefur gert allt frá stofnun 25. nóvember árið 1937.