Nýtt hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöð og leiguíbúðir
fyrir aldraða rísa við Sléttuveg í Fossvogsdal

  • Hjúkrunarheimili með rúmgóðum einstaklingsrýmum fyrir 99 íbúa.
  • Í nýrri þjónustumiðstöð verður matarþjónusta, afþreying, tómstundir, heilsurækt, útivist og opið félagsstarf eins og Reykjavíkurborg veitir í þjónustumiðstöðvum sínum.
  • 125 nýjar leiguíbúðir fyrir aldraða.

Í dag skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðmundur Hallvarðsson formaður Sjómannadagsráðs undir samninga og viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur nýs hjúkrunarheimilis, þjónustumiðstöðvar og leiguíbúða fyrir aldraða við Sléttuveg í Fossvogsdal. Fyrirkomulag verður svipað því sem er í dag hjá Hrafnistu við Laugarás í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Byggingarframkvæmdir hefjast seinni hluta þessa árs og er gert ráð fyrir að þeim verði lokið 2019. Í fyrsta áfanga verður nýtt  hjúkrunarheimili byggt og í beinu framhaldi hefjast framkvæmdir við þjónustumiðstöð og leiguíbúðir.

Rúmgóð einstaklingsrými fyrir 99 íbúa

Á hjúkrunarheimili Hrafnistu verða rúmgóð einstaklingsrými fyrir 99 íbúa ásamt setustofum, matsal og aðstöðu þar sem innangengt verður í þjónustumiðstöðina. Gert er ráð fyrir að heimilið taki til starfa á seinni hluta árs 2019. Reykjavíkurborg og ríkið gerðu í nóvember með sér samning um byggingu hjúkrunarheimilis við Sléttuveg sem Reykjavíkurborg mun reisa í samvinnu við ríkið. Borgin hefur nú ritað undir viljayfirlýsingu við Sjómannadagsráð, eiganda Hrafnistuheimilanna, um rekstur hjúkrunarheimilisins. Við hönnun og útfærslu heimilisins verður unnið í nánu samstarfi við velferðarsvið borgarinnar en við byggingu þess verður fylgt reglum velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Jafnframt er stefnt að því að nýta á sem bestan hátt þá áratugalöngu þekkingu og reynslu sem Hrafnista hefur af víðtækri þjónustu við aldraða.

Fjölbreytt og mikil þjónusta

Í samningnum sem undirritaður var í dag gætir m.a. þeirrar nýbreytni að Sjómannadagsráð mun byggja, eiga og reka fyrirhugaða þjónustumiðstöð sem samtengd verður Hrafnistuheimilinu og þremur nýjum fjölbýlishúsum með leiguíbúðum Naustavarar. Hrafnista mun bjóða öldruðum margvíslega þjónustu eins og þá sem veitt er á öðrum Hrafnistuheimilum en einnig ýmsa aðra sem veitt verður í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í sjálfri þjónustumiðstöðinni. Þar á meðal verður matarþjónusta, afþreying, tómstundir, heilsurækt, útivist og opið félagsstarf eins og Reykjavíkurborg veitir í þjónustumiðstöðvum sínum  í borginni ásamt þjónustu fótaaðgerðasérfræðinga og hárgreiðslumeistara.

Leiguíbúðir njóta nálægðar við hjúkrunarheimili

Síðar á árinu munu framkvæmdir við byggingu fjölbýlishúss með leiguíbúðunum hefjast við hlið fyrirhugaðrar þjónustumiðstöðvar við Sléttuveg og á byggingarreit við Skógarveg. Í húsunum verða u.þ.b. 125 leiguíbúðir sem leigðar verða öldruðum. Meirihluti íbúðanna verður frá 50-70 m2, en einnig verða byggðar 70-85 m2 hjónaíbúðir og nokkrar 90 m2 íbúðir eða stærri.Í starfsemi leiguíbúðanna er lögð höfuðáhersla á nálægð við hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð þar sem aldraðir hafa aðgang að fjölbreyttri þjónustu, þar á meðal sérhæfðri þjónustu í samræmi við einstaklingsbundna þörf.

Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, segir að ráðið hafi rutt brautina hvað þessa áherslu varðar á íbúðaleigumarkaði fyrir aldraða hér á landi. Markmiðið sé að þeim sem kjósa að búa á eigin vegum sé gert það kleift í öruggu umhverfi sem lagað er að mismunandi þörfum aldurshópsins. Eins og í öðrum hverfum þar sem Sjómannadagsráð leigir eldri borgurum sérhæfðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verður m.a. starfrækt húsvarsla allan sólarhringinn í húsum félagsins við Sléttuveg.  Meginmarkmiðið að sögn Guðmundar er að bjóða íbúunum alhliða þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins þar sem þjónustan fylgir einstaklingum eins og stuðningur við hann krefst hverju sinni.

Uppbygging fyrir eldri borgara á Sléttuvegi

Við Sléttuveg í Reykjavík hefur á undanförnum árum átt sér stað uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. Með samsetningu þeirrar uppbyggingar sem nú er fyrirhuguð og staðfest var í dag bjóðast eldri borgurum fleiri valkostir. Sléttuvegur er afar skjólsælt hverfi með góðu útsýni og góðu aðgengi að göngustígum í miðju Reykjavíkurborgar.

Pin It on Pinterest

Share This