Sjómannadagsblaðið, sem Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins hefur gefið út árlega í tilefni sjómannadagsins allt frá árinu 1938, kom í vikunni ylvolgt úr prentvélunum, þaðan sem blaðið fór í dreifingu til þúsunda viðtakenda.

Sjómannadagsblaðið 2022

Sjómannadagsblaðið 2022

Í blaði ársins gætir að venju fjölbreyttra viðfangsefna, en meðal þeirra sem rætt er við um sjávartengd málefni eru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem vinnur að bók um útfærslu landhelginnar í tólf mílur fyrir fimmtíu árum, en átökin sem þá urðu segir Guðni hafa verið óumflýjanleg.

Einnig er rætt við Kristján Ragnarsson, fyrrverandi formann Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem segir það draumóra að ætla að ná allsherjarsátt um fiskveiðistjórnunina.

Sömuleiðis er rætt við Einar Magnús Magnússon, sérfræðing hjá Samgöngustofu, sem segir félagslega þáttinn mikilvægt öryggisatriði á sjó en nokkuð vanmetinn. Því hafi Samgöngustofa hrint úr vör sérstöku átaki þar sem kastljósinu er beint að breyskleikum af ýmsum toga geti beinlínis valdið slysum á sjó.

Þá er í blaðinu ennfremur afar fróðlegt viðtal við Margaret Willson, mannfræðing og aðstoðarprófessor við Washingtonháskóla í Bandaríkjunum, um sjósókn íslenskra kvenna sem hún hefur rannsakað ítarlega og gefið út í bók sem þýdd hefur verið á fjölda tungumála. Hún segir sjósókn íslenskra kvenna allt frá landnámi hafa verið mun meiri en talið var og von sé á nýrri bók frá henni, að þessu sinni um Þuríði formann.

Wilson segir kveikjuna að þeirri bók hafa verið heimsókn í Þuríðarbúð á Stokkseyri þegar hún áttaði sig á því að skipstjórinn sem verið var að fræða hana um hefði verið kona.

Hátíðarhöld sjómannadagsins
Fjölmargt fleira áhugavert er að finna í Sjómannadagsblaðinu í ár sem nýkomið er út í átttugasta og fimmta sinn, m.a. dagskrá hátíðarhalda sjómannadagsins sem fram fer með fjölbreyttri dagskrá á Grandanum á sunnudag, sjómannadaginn, eins og hægt er að kynna sér í Sjómannadagsblaðinu sem nálgast til lestrar á vefslóðinni: sjomannadagurinn.is/sjomannadagsbladid.

Pin It on Pinterest

Share This