Undirbúningur að framkvæmdum við uppbyggingu á nýju Öldrunarsetri við Sléttuveg er nú í fullum undirbúningi. Deiliskipulag hverfisins hefur verið samþykkt og vinna við hönnun stendur nú yfir á nýju 99 rýma hjúkrunarheimili sem verður inngengt við þjónustumiðstöð og 140 leiguíbúðir fyrir aldraða. Verkefnið við Sléttuveg er stórt á mælikvarða verkefna við uppbyggingu á aðstöðu fyrir aldraða og líklega er það stærsta sinnar tegundar sem nokkurn tíma áður hefur verið ráðist í á Íslandi. Áætlanir gera ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist á næstu mánuðum og að hjúkrunarheimilið og þjónustumiðstöð verði tilbúin fyrir árslok árið 2019.

Sjómannadagsráð hefur nú ráðið Jón Grétar Magnússon til annast verkefnisstjórn þessa stóra og mikilvæga verkefnis. Jón Grétar er menntaður byggingarfræðingur og löggiltur mannvirkjahönnuður. Hann hefur talsverða reynslu af byggingum og rekstri fasteigna og bindum við miklar vonir við að hann eigi eftir að ná góðum árangri við þau fjölmörgu markmið sem Sjómannadagsráð hefur sett sér í samstarfi við Hrafnistu og Naustavör.

Við bjóðum Jón Grétar velkominn til starfa.

Pin It on Pinterest

Share This