Reykjavíkurborg og Sjómannadagsráð, eigandi Hrafnistu, undirrituðu í dag samning um rekstur hjúkrunarrýma og dagdvalar við Sléttuveg í Reykjavík. Áður hafði borgin samið við Velferðarráðuneytið um byggingu hjúkrunarheimilisins og leitað í kjölfarið til Sjómannadagsráðs og Hrafnistu um að hafa umsjón með framkvæmdinni fyrir sína hönd.
Reykjavíkurborg felur Hrafnistu rekstur á 99 hjúkrunarrýmum á fimm hæðum við Sléttuveg í Fossvogi. Hrafnista skuldbindur sig til að reka heimilið á sem hagkvæmastan hátt, en þó alltaf með markmið Hrafnistu í huga um andlega, líkamlega og félagslega vellíðan íbúa. Einnig verða gildi og stefna Reykjavíkurborgar í þjónustu við eldri borgara og mannréttindastefna Reykjavíkur höfð að leiðarljósi.
Samhliða hjúkrunarheimilinu reisir Sjómannadagsráð glæsilega þjónustumiðstöð sem sambyggð verður hjúkrunarheimilinu. Í þjónustumiðstöðinni mun Hrafnista starfrækja 30 dagdvalarrými fyrir Reykjavíkurborg. Auk þess verður í þjónustumiðstöðinni ýmis þjónusta sem nýtist bæði íbúum í hverfinu og íbúum hjúkrunarheimilisins, svo sem hárgreiðslustofa, fótsnyrtistofa, kaffihús, samkomusalir, sjúkraþjálfun og líkamsrækt.
Hrafnista hefur yfir 60 ára reynslu af öldrunarþjónustu og er Hrafnista í dag stærsti aðilinn í rekstri hjúkrunarheimila og dagdvala hér á landi. Nú starfrækir Hrafnista rúmlega 600 hjúkrunarrými á sex hjúkrunarheimilum í fimm sveitarfélögum. Dagdvalir á vegum Hrafnistu eru nú þrjár en í byrjun næsta árs verður sú fjórða opnuð. Dagdvölin á Sléttuveginum verður því fimmta dagdvölin á vegum Hrafnistu.
Á nýja hjúkrunarheimlinu á Sléttuvegi, sem stefnt er að opna á seinni hluta næsta árs, verður rík áhersla verður lögð á sjálfsákvörðunarrétt og þátttöku íbúa. Starfsfólk og íbúar vinna saman að því að skapa heimilislegt, hlýlegt og virkt samfélag.