Vegna fjöldatakmarkana var heiðrunarathöfn Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins með óhefðbundnu sniði í ár. Sökum heimsfaraldursins féll Hátíð hafsins niður en Sjómannadagsráð lét ekki deigan síga og hélt látlausa athöfn í þjónustumiðstöðinni Sléttunni á Sléttuvegi fyrir sjómenn þá er skarað hafa fram úr og skilað af sér farsælu starfi til sjós. Þeir sem voru heiðraðir eru Guðlaugur Jónsson, Árni Sigurbjörnsson, Benedikt Svavarsson, Jón Bjarnason og Ólafur Theódór Skúlason. Hefð er fyrir því að karlakór flytji viðeigandi sönglög af þessu tilefni en ákveðið var að sníða stakk eftir vexti og fá Gissur Pál Gissurarson til að þenja raddböndin fyrir viðstadda. Á daginn kom að ekkert píanó var til staðar á Sléttunni og því yrði enginn undirleikurinn. Fulltrúar Sjómannadagsráðs settu sig því í samband við stórútgerðarmanninn Guðmund Kristjánsson í Brimi og sögðu honum frá málavöxtum. Guðmundur er vanur því að láta hendur standa fram úr ermum og var fljótur til að glæða þjónustumiðstöðina tónum og lífi með því að kaupa stórgóða slaghörpu af gerðinni Kawai. Hljóðfærið var svo vígt af Bjarna Frímanni Bjarnasyni, hljómsveitastjóra og píanóleikara, sem annaðist undirleik í athöfninni. Þessi höfðinglega gjöf mun nýtast gestum þjónustumiðstöðvarinnar á Sléttunni og íbúum á Hrafnistu Sléttuvegi við hin ýmsu tilefni um ókomna tíð. Sjómannadagsráð þakkar Guðmundi Kristjánssyni í Brimi innilega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við athöfnina en eftir heiðrun sjómanna var boðsgestum boðið að þiggja veitingar og á eftir hélt KK tónleika fyrir gesti og gangandi