Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur í Reykjavík sunnudaginn 12. júní í sumar. Það eru Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð og Brim hf. sem eru bakhjarlar hátíðarinnar og standa munu að hátíðarhöldunum á Granda. Á dögunum undirrituðu þessir aðilar samstarfssamning sín á milli með það að markmiði að auka hróður dagsins.

„Sjómannadagurinn er alla jafna haldinn fyrstu helgina í júní, en þar sem hvítasunnu ber upp þá helgi í ár, verður sjómannadagurinn haldinn aðra helgi júnímánaðar, sunnudaginn 12. júní. Við ætlum að gera daginn eftirminnilegan fyrir gesti og gangandi, enda hefur hátíðin fest sig í sessi og verður æ fjölmennari ár frá ári. Það sem vakir ekki síður fyrir okkur er að kynna þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga og gefa fólki innsýn í starfsemina,“ segir Aríel Pétursson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.

Á undanförnum árum hefur sjómannadagurinn verið kynntur sem hluti af Hátíð hafsins sem staðið hefur yfir í tvo daga; laugardag og sunnudag. Í ár verður sjálfur sjómannadagurinn þó látinn duga og öllu tjaldað til sunnudaginn tólfta júní.

137 dagar til stefnu

Samstarfsaðilar hátíðarinnar hafa samið við Önnu Björk Árnadóttur, eiganda og framkvæmdastjóra viðburðafyrirtækisins Eventum um að stýra hátíðinni auk þess sem Elísabet Sveinsdóttir hefur tekið að sér að annast markaðs- og kynningarmál. Undirbúningur af þeirra hálfu er þegar hafinn, enda er að mörgu að huga fyrir jafn viðamikla hátíð og sjómannadagurinn er á höfuðborgarsvæðinu.

„Tenging okkar við sjóinn er mikilvægur þáttur í þjóðarsál okkar Íslendinga og verður markmið okkar að stuðla að enn frekari tengingu í gegnum leik, listir, fræðslu og skemmtun. Það er mitt persónulega markmið að dagurinn verði ógleymanlegur og er hópurinn allur á því að gera okkar besta til að svo verði,“ segir Anna Björk.

Meðal mestu hátíðisdaga ársins

Sjómannadagurinn er einn af stærri hátíðisdögunum í Reykjavík á ári hverju, enda leggja að jafnaði tugir þúsunda gesta leið sína á hafnarsvæðið við Gömlu höfnina og Grandagarð um sjómannadagshelgina ár hvert. Sem dæmi voru gestir yfir 40 þúsund á Grandagarði þegar sjómannadagurinn var síðast haldinn hátíðlegur árið 2019.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs í síma 892 1771. Netfang: sigurdur.gardarsson@sjomannadagsrad.is.

 

 

 

 

 

Meðfylgjandi mynd: Á myndinn eru f.v. Torfi Þ. Þorsteinsson, forstöðumaður samfélagstengsla hjá Brimi, Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, Erna Kristjánsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Faxaflóahafna, Anna Björk Árnadóttir, Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, og Elísabet Sveinsdóttir.

Pin It on Pinterest

Share This