Samherjar okkar í öldrunarþjónustunni, Grundarheimilin, fögnuðu hvorki meira né minna en hundrað ára afmæli sínu um helgina. Tímamótunum hefur verið fagnað með margvíslegum hætti og sl. laugardag var efnt til afmælishófs í hátíðarsal Grundar við Hringbraut. Við það tækifæri afhenti Aríel Pétursson, formaður SDR, kollega sínum í stjórnarformannsstóli Grundar, Jóhanni J. Ólafssyni, afsteypu af styttunni Horft til hafs sem Ingi Þ. Gíslason gerði fyrir Sjómannadagsráð og afhjúpuð var fyrir rétt rúmum aldarfjórðungi síðan. Styttan stendur í sinni fullu stærð austast á hafnarbakkanum í Reykjavíkurhöfn og hefur frá upphafi verið ætlað að minna borgarbúa og aðra landsmenn á að það voru fiskimenn sem breyttu bænum í borg.
Á milli heimilanna hefur alla tíð verið gott og gjöfult samstarf og við óskum Grund innilega til hamingju með þennan merka áfanga í farsælli sögu sinni.