Annað af meginhlutverkum Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins er að halda upp á Sjómannadaginn. Sjómannadagurinn er lögbundinn frídagur sjómanna og eru haldnar veglegar hátiðir um allt land til að heiðra sjómenn fyrir þeirra fórnfúsu störf og ekki síður til að gleðjast og skemmta sér.

Sjómannadagurinn er að öllu jöfnu haldinn fyrsta sunnudag í júní, sem bar upp á 3. júní í ár. Um síðustu aldamót hófst samstarf við Faxaflóahafnir um að halda sameiginlega Hafnardaginn og Sjómannadaginn undir samheitinu Hátíð hafsins, þar sem almenn skemmtidagskrá er á laugardeginum og síðan er Sjómannadeginum gefin sértakur sess á sunnudeginum.

Undanfarin ár hefur verið gerð könnun á þátttöku og viðhorfum til Hátíðar hafsins. Samkvæmt henni vissu fjölmargir af hátíðinni, en tóku þó ekki þátt. Af þeim sem mættu voru nær allir ánægðir með það sem var boðið upp á. Það sem fólk var helst ánægt með var hversu mikið var í boði fyrir börnin, hægt var að smakka góðan mat, fjölbreyttar uppákomur og mikið um að vera.

Sjómannadagsblaðinu hefur verið dreift ókeypis á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu fyrir Sjómannadaginn og er almenn ánægja með blaðið, enda mikið af fróðlegum greinum og skemmtilegum upplýsingum í blaðinu.

Það er ljóst að samstarfið um Hátíð hafsins hefur gert hátíðarhöldin í kringum Sjómannadaginn veglegri og meira áberandi meðal almennings og mun meira er núna í boði fyrir yngstu kynslóðina.

Pin It on Pinterest

Share This