Hefðbundin dagskrá Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins verður haldin með lítils háttar takmörkunum á sjómannadaginn, sunnudaginn 6. júní frá kl. 10 til 15 með minningarathöfn um drukknaða og týnda sjófarendur, sjómannamessu, heiðrun sjómanna og útvarpsviðtali um sögu Sjómannadagsráðs. Eins og áður hefur komið fram verður Hátíð hafsins við gömlu höfnina ekki haldin í ár. Að venju ríkir mikil hátíðarstemning á Hrafnistuheimilunum á sjómannadaginn þar sem skreytingar og flöggun eru hafðar í hávegum og íbúum og aðstandendum boðið í hátíðarkaffi í samræmi við gildandi takmarkanir.

Látinna og týndra minnst
Dagskráin hefst kl. 10 með minningarathöfn um drukknaða og týnda sjómenn við Minningaröldur Sjómannadagsráðs við Fossvogskirkju þar sem þeirra verður minnst og blómsveigur lagður að minnismerkinu þar sem vitinn um óþekkta sjómanninn stendur í bakgrunni. Athöfnin við Minningaröldurnar er opin öllum.

Sjómannamessa í Dómkirkjunni og Rás 1
Að lokinni minningarathöfn í Fossvogi hefst kl. 11 árleg sjómannamessa í Dómkirkjunni þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, predikar. Séra Sveinn Valgeirsson þjónar fyrir altari og starfsfólk Landhelgisgæslunnar les úr ritningunni. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormar organista. Einsöng annast Magnús Már Björnsson. Hátíðarmessunni, sem opin er öllum, verður að venju útvarpað á Rás 1 Ríkisútvarpsins.

Heiðrun sjómanna streymt
Að lokinni guðsþjónustu verða sjómenn heiðraðir eins og venja er en að þessu sinni við lokaða athöfn að viðstöddum mökum og aðstandendum heiðraðra og fulltrúum Sjómannadagsráðs. Heiðrun sjómanna hefst kl. 13.30 og verður streymt á heimasíðu Sjómannadagsráðs (sjomannadagsrad.is) og á Facebooksíðu Sjómannadagsráðs. Smellið hér til að fylgjast með viðburðinum.

Íslands Hrafnistumenn
Síðasta dagskrárlið Sjómannadagsráðs á sjómannadaginn í ár annast Ríkisútvarpið á Rás 1 með dagsrárliðnum Íslands Hrafnistumenn, sem hefst kl. 14. Í þættinum ræðir Margrét Blöndal við Hálfdan Henrysson, formann ráðsins og Guðmund Hallvarðsson, fyrrverandi formann um sögu Sjómannadagsráðs.

Pin It on Pinterest

Share This