María Fjóla Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu, var í dag ráðin forstjóri Hrafnistuheimilanna frá og með 1. september. María hefur starfað hjá Hrafnistu frá árinu 2015 sem framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs. Hún hefur enn fremur sinnt starfi forstjóra Hrafnistu undanfarna mánuði, ásamt Sigurði Garðarssyni framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs, og er hún jafnframt fyrsta konan í því starfi. Sigurður Garðarsson mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra Sjómannadagsráðs.

Hrafnista rekur í dag átta hjúkrunarheimili í fimm sveitafélögum og er Hrafnista önnur stærsta heilbrigðisstofnun landsins þegar litið er til fjölda íbúa, þjónustuþega og starfsfólks. Hrafnista er eitt dótturfélaga Sjómannadagsráðs, sem í sitja fulltrúar sem tilnefndir eru af stéttarfélögum sjómanna á höfuðborgarsvæðinu. María Fjóla er sjötti forstjóri Hrafnistu sem tók til starfa á sjómannadaginn 2. júní 1957.

Reykjavík 11. ágúst 2020.

F.h. stjórnar Sjómannadagsráðs, Hálfdán Henrysson formaður.

Pin It on Pinterest

Share This