Kristján Björgvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjámálasviðs (fjármálastjóri) Hrafnistuheimilanna og fjármálastjóri Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistu. Með skipulagsbreytingu sem varð á skipuriti Hrafnistu þann 1. október s.l. er fjármálasvið eitt þriggja stoðsviða í starfsemi Hrafnistu en hin tvö sviðin eru heilbrigðissvið og rekstrarsvið. Jafnframt er hluti starfsins fjármálastjórastarf Sjómannadagsráðs en í því fellst að hafa umsjón með fjármálastjórnun og fjármálaráðgjöf annara fyrirtækja Sjómannadagsráðs.

Kristján er viðskiptafræðingur að mennt, með löggildingu í endurskoðun, meistarapróf í fjármálum fyrirtækja og próf í verðbréfamiðlun. Hann hefur gríðarlega mikla starfsreynslu og breiða þekkingu úr fjármálageira íslensks atvinnulífs. Kristján hefur undanfarin átta ár verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Mjólkursamsölunnar ehf. (MS) og Auðhumlu svf., aðaleiganda MS. Áður hafði hann gengt fjármálastjórastörfum og fjölbreyttum ráðgjafastörfum á fjámálasviði fyrirtækja um árabil.

Hér með er Kristján boðinn hjartanlega velkominn til starfa hjá Sjómannadagsráði og Hrafnistu. Fyrsti vinnudagur hans er 16. október n.k.

Pin It on Pinterest

Share This