Þann 6. maí var fyrsta skóflstungan tekin að stækkun hjúkrunarheimilis Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ um 3.200 fermetra sem reistir verða á þremur hæðum á lóðinni við núverandi heimili. Í viðbyggingunni verða herbergi fyrir 60 íbúa og með tilkomu þeirra verður hjúkrunarheimilið Hlévangur aflagt. Þar eru íbúar þrjátíu og flytjast þeir yfir til Nesvalla í kjölfar stækkunarinnar. Hjúkrunarrýmum í Reykjanesbæ mun því fjölga um þrjátíu við stækkunina. „Nýbyggingin verður kærkomin viðbót í öldrunarþjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum og landsmenn alla. Sjómannadagsráð mun stýra framkvæmdum fyrir hönd Reykjanesbæjar og verður hönnun heimilisins á allan hátt til fyrirmyndar með aðbúnað og lífsgæði íbúa og starfsfólks að leiðarljósi. Við erum afar stolt af því trausti sem Reykjanesbær sýnir okkur með því að fela okkur umsjón með þessu byggingarverkefni fyrir hönd bæjarins.“ segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.
Í ávarpi sem forstjóri Hrafnistu, María Fjóla Harðardóttir, flutti við tímamótin í Reykjanesbæ föstudaginn 6. maí, sagði hún sannarlega ástæðu til að gleðjast enda væri skóflustungan til marks um nýtt skref sem tekið væri til að bæta aðbúnað og lífsgæði íbúa á svæðinu sem þurfa á sólarhringsumönnun að halda.
Lýsir miklum metnaði sveitarfélagsins
„Það lýsir að mínu mati miklum metnaði hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar og vilja til að gera vel við íbúa Reykjanesbæjar að núverandi stjórn leitaði til Sjómannadagsráðs og Hrafnistu sem sérfræðinga í byggingu hjúkrunarheimilis og reksturs. Vegna okkar sterka starfsmannahóps búum við yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu á sviði byggingar og reksturs hjúkrunarheimila með það í huga að veita íbúum og starfsmönnum besta mögulegan aðbúnað hverju sinni. Við höfum einnig þeirri gæfu að fagna að vita að við vitum ekki allt og munum aldrei vita allt og erum því stöðugt að leita okkur upplýsinga um það sem betur mætti fara með samtali við íbúa heimilanna, starfsfólk og stjórnendur. Þannig náum við að gera stöðugt betur í dag en í gær,“ sagði María Fjóla m.a. í ræðu sinni.
Sé ávallt leiðandi í þjónustu við aldraða
Hrafnista fylgir framtíðarsýn Sjómannadagsráðs sem hefur það að markmiði að vera leiðandi aðili í þjónustu og umönnun aldraðra. Stækkun Nesvalla er nýr áfangi á þeirri vegferð sem bæta mun verulega alla þjónustu og aðbúnað íbúa Hrafnistu í Reykjanesbæ. Tilkoma viðbyggingarinnar mun einnig leiða til þess að öll starfsemi Hrafnistu í sveitarfélaginu færist undir einn hatt sem veitir kærkomin tækifæri til hagræðingar í rekstri, ásamt því að bæta þjónustu við íbúa og vinnuumhverfi starfsfólks. Stækkun Nesvalla hefur lengi verið meðal helstu áherslumála í sveitarfélaginu og fór því vel á því að skóflustunguna af heimilinu tækju, ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, þær Guðrún Eyjólfsdóttir formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum og Betsý Ásta Stefánsdóttir, formaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.
Á meðfylgjandi mynd eru f.v.: Oddur Magnússon, stjm. í Sjómannadagsráði, Árni Sverrisson, stjm. í sjómannadagsráði, Jónas Garðarsson stjm. í sjómannadagsráði, Aríel Pétursson, form. Sjómannadagsráðs, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Þuríður I. Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Nesvöllum, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, Sigurður Hreinsson, verkefnisstjóri hjá Sjómannadagsráði og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.