Nýlega áttu fulltrúar Sjómannadagsráðs og Hrafnistu fund með heilbrigðisráðherra, til að kynna hugmyndir um átak til að flýta núverandi áætlunum hins opinbera um byggingu og rekstur nýrra hjúkrunarrýma. Frumkvæði og tilefni fundarins var ekki síst umræðan um erfitt ástand í starfsemi Landspítalans, sem stafar ekki síst af miklum skorti á hjúkrunarrýmum, eins og stjórnendur spítalans hafa ítrekað bent á. Vildu fulltrúar Sjómannadagsráðs og Hrafnistu kynna sína hugmyndir um lausn vandans, enda hefur Sjómannadagsráð langa reynslu af nýbyggingum hjúkrunarrýma og leiguíbúða í fyrir aldraðra.

Áætlanir um 717 ný hjúkrunarrými til 2024

Í greinargerð með núgildandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar (2020 – 2024) eru lögð fram markmið um að fjölga nýjum hjúkrunarrýmum um 717  á tímabilinu. Reynsla síðustu ára hefur sýnt að það tekur of langan tíma að koma hjúkrunarheimilum í notkun eftir að samkomulag milli ríkis og sveitarfélags hefur verið undirritað. Mörg dæmi eru um að það líði yfir 5 ár frá því að heilbrigðisráðuneytið tekur ákvörðun um byggingu nýs hjúkrunarheimilis þar til rekstur þess hefst. Ljóst er að með þessu fyrirkomulagi mun reynast torvelt að ná áðurnefndu markmiði, nema að ráðstafanir verði  gerðar til að stytta tímann sem ferlið tekur.

Stenst markmið umbyggingartíma og kostnað

Nú styttist í að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið í notkun við Sléttuveg í Fossvogi. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja aðila, þ.e. Heilbrigðisráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sjómannadagsráðs/Hrafnistu. Samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg frá maí 2017 tók Sjómannadagsráð, með aðkomu Hrafnistu, að sér að hafa umsjón með framkvæmdum við byggingu á nýju 99 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Nú, aðeins 32 mánuðum síðar, er rekstur hins nýja hjúkrunarheimilis hafinn og fyrstu íbúarnir flytja inn eftir að vígsla þess hefur farið fram þann 28. febrúar næstkomandi. Þetta er styttri framkvæmdatími en áður hefur þekkst, auk þess sem byggingarkostnaður verður talsvert undir þeim markmiðum sem sett voru í samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar í október 2016. Það gerist þrátt fyrir að bæði byggingar- og launavísitala hafi hækkað um 15-20% á tímabilinu og gengi krónunnar lækkað um 8-9%. Í samanburði við önnur áform við byggingu hjúkrunarheimila hefur framkvæmdin á Sléttuvegi gengið mun hraðar fyrir sig og byggingarkostnaðurinn verður tugum prósenta lægri en hjá öðrum hjúkrunarheimilum sem nú eru í byggingu, eða hafa nýlega verið tekin í notkun.

Byggist á reynslu og góðum samstarfsaðilum

Þennan góða árangur má þakka góðu samstarfi milli Heilbrigðisráðuneytisins,  Reykjavíkurborgar og Hrafnistu. Að mati Sjómannadagsráðs skiptir það sköpum að hafa frá byrjun aðgang að þeim rekstrararaðila sem tekur við starfseminni til að gera það mögulegt að taka allan þann fjölda ákvarðana sem þarf í svona flóknu verkefni. Hrafnista sem býr að langri og ómetanlegri reynslu af rekstri hjúkrunarheimila sem gerir kleift að skila af sér heimili sem uppfyllir kröfur og væntingar notenda og um leið að skila því innan settra markmiða um byggingartíma og kostnað. Hjúkrunarheimilið Á Sléttuvegi fylgir öllum reglum ríkisins um aðstöðu og aðbúnað, auk þess sem þar eru að finna ýmsar nýjungar í hönnun og skipulagi sem gera kleift að veita enn betri þjónustu.

Sjómannadagsráð getur komið að brýnum verkefnum

Á fundinum með ráðherra lýstu fulltrúar Sjómannadagsráðs og Hrafnistu áhuga sínum að koma að frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila á næstunni í samstarfi við hið opinbera, að því tilskyldu að stuðst verði við sambærilegt fyrirkomulag og við Sléttuveg. Það fólst í meginatriðum í því að Sjómannadagsráði og Hrafnistu verði falin umsjón með hönnun, framkvæmdum og rekstri hjúkrunarrýmanna. Með slíku samkomulagi væri gerlegt að byggja ný hjúkrunarrými mun hraðar og ódýrar en núverandi fyrirkomulag ríkisins myndi leiða af sér. Meðal verkefna sem hrinda mætti í framkvæmd nú þegar eru t.d. stækkun hjúkrunarheimilisins við Boðaþing í Kópavogi (áætluð 64 rými), nýbygging á stóru hjúkrunarheimili í Reykjavík (100-200 rými) auk annarra brýnna verkefna sem bíða úrlausnar.

Pin It on Pinterest

Share This