Skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn í Reykjavík sunnudaginn 7. júní hefur verið aflýst í ár vegna aðstæðna í samfélaginu. Þetta er í fyrsta sinn í áttatíu og þriggja ára sögu ráðsins sem dagskránni er aflýst, en sjómannadagurinn var fyrst haldinn 1938. Einnig fellur dagskrá Hátíðar hafsins niður, sem halda átti 6. og 7. júní við Gömlu höfnina. Engin breyting verður á útgáfu Sjómannadagsblaðsins og verður 83. árgangi blaðsins dreift til viðtakenda föstudaginn 5. júní.

Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins hefur allt frá árinu 1938 gengist fyrir skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn með minningarathöfn um drukknaða sjómenn, skrúðgöngu að Dómkirkjunni, þar sem árleg sjómannamessa fer fram auk heiðrunar sjómanna. Aldrei fyrr í sögu Sjómannadagsráðs hafa þessir viðburðir fallið niður enda er sjómannadagurinn ekki síst helgaður minningu látinna sjómanna.

Árlega hefur Sjómannadagsráð jafnframt gengist fyrir fjölskylduhátíð á sjómannadaginn við Gömlu höfnina í Reykjavík með ýmsum leikjum og þrautum. Undanfarin sautján ár hefur sá hluti hátíðarhaldanna verið efldur með samstarfi við Faxaflóahafnir og Brim með veglegri tveggja daga hátíðarhöldum undir merki Hátíðar hafsins á gamla hafnarsvæðinu við Grandagarð. Hátíð hafsins er auk dagskrár Menningarnætur tvímælalaust einn helsti árlegi borgarviðburðurinn. Á hafnarsvæðið leggja allt að 40 þúsund gestir leið sína ár hvert um sjómannadagshelgina til að upplifa skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem hægt er að kynnast ýmsu sem tengist lífríki sjávarins, sjómennsku, verðmætasköpun og öðru er við kemur mikilvægi sjávar- og hafnarstarfsemi eins og hægt er að kynna sér á vef hátíðarinnar, hatidhafsins.is. Vegna takmarkana sem nú gilda af heilbrigðisástæðum um návígi fólks verður ekki af hátíðinni, en aðstandendur hennar eru staðráðnir í að taka upp þráðinn á ný að ári með veglegri dagskrá á hafnarsvæðinu.

Um Sjómannadagsráð
Sjómannadagsráð var stofnað 25. nóvember 1937. Það sinnir í dag velferðarmálum sjómanna og er jafnframt leiðandi aðili í öldrunarþjónustu á landinu. Ásamt og með dótturfélögum sínum; Hrafnistu, Naustavör, Happdrætti DAS og Laugarásbíói, veitir Sjómannadagsráð á annað þúsund manns í fimm sveitarfélögum daglega öldrunarþjónustu. Frá stofnun Sjómannadagsráðs til dagsins í dag hafa 1.328 sjómenn farist við störf sín og er sjómannadagurinn m.a. tileinkaður minningu þeirra. Miklar framfarir hafa orðið á öryggi sjómanna við dagleg störf sín með þeim árangri að frá árinu 2017 hefur enginn látist á sjó. Sjá nánar www.sjomannadagsrad.is

Pin It on Pinterest

Share This