Föstudaginn 28. mars var fyrsti áfangi lífsgæðakjarnans – Sléttunnar tekinn í notkun þegar nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík opnaði að viðstöddu miklu fjölmenni. Ríkissjóður (85%) og Reykjavíkurborg (15%) eiga heimilið en afhentu Sjómannadagsráði og Hrafnistu það til hönnunar, byggingar og reksturs. Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson og Hálfdan Henrýsson formaður Sjómannadagsráðs fluttu stutt ávörp og var gestum boðið að skoða heimilið. Lífsgæðakjarninn á Sléttunni er sá fjórði sem Sjómannadagsráð hefur þróað í 80 ára sögu sinni.

Með tilkomu þessa nýja hjúkrunarheimilis verða hjúkrunarrými Hrafnistu um 800. Heimilið er mikilvægur hluti nýs lífsgæðakjarna sem Sjómannadagsráð og samstarfsaðilar þess, ríki og borg, byggja upp í Fossvogsdal og hefur fengið nafnið Sléttan. Vígsla heimilisins markar fyrsta áfanga verkefnisins, en aðrir eru vígsla þjónustumiðstöðvar Sléttunnar sem tekur til starfa í áföngum frá og með apríl og útleiga 60 nýrra leiguíbúða Naustavarar, dótturfélags Sjómannadagsráðs, á komandi sumri í nýrri samtengdri byggingu.

Rösklega hefur verið staðið að verki við hönnun og byggingu þessa glæsilega heimilis en það hefur hvorki komið niður á gæðum eða kostnaði, þar sem ljóst er að kostnaðurinn verður innan setts fjárhagsramma. Samnýting húsnæðis á Sléttunni er þar lykilatriði.

Ýmsar nýjungar einkenna hjúkrunarheimilið hvað varðar hönnun, skipulag og rekstur. Margar þessara nýjunga voru þróaðar í samráði við Hrafnistu og tóku mið af áratugalangri reynslu við þjónustu og umönnun.

Pin It on Pinterest

Share This