Sjómannadagsráð fer með umsjón með byggingarframkvæmdum við nýtt hjúkrunarheimili á Sléttuvegi fyrir hönd Reykjavíkurborgar og heilbrigðisráðuneytisins. Hjúkrunarheimilið verður hluti af Sléttunni sem er lífsgæðakjarni fyrir eldra fólk og mun gegna því hlutverki að vera ein af hverfismiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Framkvæmdum við þjónustumiðstöð mun ljúka í mars mánuði og byggingu leiguíbúða Naustavarar lýkur í júní.

Samningur um framkvæmdina var undirritaður af ríkinu og Reykjavíkurborg í október 2016 og rúmu ári síðar hófust byggingarframkvæmdir. Mánudaginn 2. febrúar s.l. voru skemmtileg tímamót fyrir hjúkrunarheimilið á Sléttuvegi, þar sem húsið var formlega afhent til rekstrar aðila þess, Hrafnistu. Staða verkefnisins er þannig í dag að öryggisúttekt byggingarfulltrúa hefur farið fram og aðeins er beðið eftir vottorði byggingarfulltrúa.

Athöfnin fór þannig fram að fyrir hönd verktaka afhenti Eggert Jónsson hjá Þarfaþingi Sigurði Garðarssyni glæsilegan grip eftir Þór Sigmundsson steinsmíðameistara, unninn úr steini úr grunninum. Sigurður þakkaði Eggerti fyrir gripinn góða og gott samstarf við Þarfaþing. Einnig þakkaði hann hönnuðum, verktökum, byggingastjóra, verkefnisstjórninni og byggingarnefndinni fyrir góð störf. Áður en Sigurður afhenti Regínu Ástvaldsdóttur sviðsstjóra Velferðarsviðs, lyklavöldin, þakkaði hann ennfremur Reykjavíkurborg og Heilbrigðisráðuneytinu fyrir einstaklega gott samstarf. Sveinn Magnússon frá heilbrigðisráðuneytinu þakkaði fyrir vel unnið verk og óskaði þessari nýju starfsemi velfarnaðar. Regína Ásvaldsdóttir fyrir hönd Velferðarsvið Reykjavíkurborgar bað viðstadda að klappa fyrir nýjum starfsmönnum sem nú eru að hefja störf á þessu nýja glæsilega Hrafnistuheimili sem og óskaði þeim velfarnaðar um leið og hún þakkaði fyrir gott og farsælt samstarf. Að lokum gaf hún Pétri Magnússyni, forstjóra Hrafnistu lykilinn og tók hann formlega við lyklavöldunum. Hann sagði mikla vinnu framundan á næstu vikum við að koma inn öllum búnaði og fullvissaði hann viðstadda að því verki yrði lokið á tíma. Að lokum tók Valgerður K. Guðbjörnsdóttir, forstöðumaður hjúkrunarheimilisins við lyklunum frá Pétri og sagðist hún hlakka til að breyta þessu glæsilega húsi í heimili.

Sjómannadagsráð fagnar hér enn einum stórum áfanga í níu áratuga starfi sínu í uppbyggingu á aðstöðu og þjónustu fyrir aldraða. Með Hrafnistu hjúkrunarheimili og Naustavör íbúðum mun uppbyggingin á Sléttunni bæta lífsgæði þeirra sem búa í 99 hjúkrunarrýmum, 140 íbúðum auk þeirra hundruða sem búa í næsta nágrenni við Sléttuna.

Pin It on Pinterest

Share This