Mánudaginn 3. febrúar n.k. verður Reykjavíkurborg og Hrafnistu afhent lyklavöld að nýja hjúkrunarheimilinu við Sléttuveg. Það er ánægjulegt að áætlanir okkar hafa staðist, en öryggisúttekt Byggingafulltrúa Reykjavíkur gekk vel s.l. mánudag. Því er ekkert því til fyrirstöðu að starfsemi hefjist í húsinu á næstu vikum.

Verktakafyrirtækið Þarfaþing sem sá um innanhúsfrágang í hjúkrunarheimilinu, mun afhenda verkefnisstjórn útboðsverk sitt formlega á mánudaginn. Í framhaldi af því mun verkefnisstjórnin afhenda Reykjavíkurborg og Hrafnistu heimilið til rekstrar.

Frá þeim tímamótum getur starfsfólk Hrafnistu hafist handa við að koma sér fyrir og koma fyrir rekstrarbúnaði, skipulagi og öðru. Að þeirri vinnu lokinni verður ekkert sem stendur í vegi fyrir að fyrstu íbúar hjúkrunarheimilisins geti flutt inn í lok febrúar eða byrjun mars.

Formleg opnun hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg er áætluð þann 28. febrúar.

Pin It on Pinterest

Share This