Aðalfundur Sjómanndagsráðs 2021 var haldinn þann 12. maí í Þjónustumiðstöðinni Sléttunni. Alls mættu 29 fulltrúar frá fimm stéttarfélögum á fundinn ásamt yfirstjórnenda fyrirtækja Sjómannadagsráðs. Auk hefðbundinna aðalfundastarfa s.s. samþykkt ársreikninga voru samþykktar endurbætur á núverandi lögum ráðsins. Breytingarnar eru helst til þess fallnar að aðlaga lögin að breyttum tímum og núverandi starfsemi.

Guðjón Ármann Einarsson varaformaður lauk kjörtímabili eftir áratuga starf í stjórn Sjómannadagsráðs, en í hans stað var Aríel Pétursson kosinn varaformaður. Vill Sjómannadagsráð þakka Guðjóni Ármanni fyrir góð störf í þágu félagsins. Á fundinum voru gjaldkeri og varamaður í stjórn einnig endurkjörnir.

Fundurinn samþykkti þrjár ályktanir varðandi daggjöld til hjúkrunarheimila, staðsetningu náms í vél- og skipstjórn og um varðveislu varðskipsins Óðins.

Aðalfundur Sjómannadagsráðs þann 12. maí 2021 haldinn að Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík skorar á Ríkisstjórn Íslands að leiðrétta nú þegar daggjöld til hjúkrunarheimila.

Aðalfundur Sjómannadagsráðs þann 12. maí 2021 haldinn að Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík skorar á menntamálaráðherra að sjá til þess að nám í vél- og skipstjórn verði áfram í Sjómannaskólahúsinu á Rauðarárholti.

Aðalfundur Sjómannadagsráðs þann 12. maí 2021 haldinn að Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík skorar á Ríkisstjórn Íslands að sjá til þess að nægilegu fé verði veitt til verndunar varðskipsins Óðins svo halda megi skipinu í verðugu ástandi öllum til fróðleiks og ánægju.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Garðarsson

sigurdur@sjomannadagsrad.is

Pin It on Pinterest

Share This