Aðalfundur Sjómannadagsráðs var haldinn í 87. sinn, þriðjudaginn 7. maí í þjónustumiðstöðinni Sléttunni við Sléttuveg. Vel var mætt á fundinn og voru flutt áhugaverð erindi, sem fundarmenn voru mjög ánægðir með. Guðmundur Hallvarðsson fyrrverandi formaður Sjómannadagsráðs stjórnaði fundinum af miklum skörungsskap. Engin breyting var á stjórn ráðsins og var Árni Sverrisson endurkjörinn til varaformanns og Jónas Garðarsson til gjaldkera.

Aríel Pétursson formaður Sjómannadagsráðs flutti skýrslu stjórnar og fór yfir starfsemi ráðsins frá seinasta aðalfundi. Þar næst kom María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu, sagði frá starfsemi Hrafnistu og kynnti stefnumótunarvinnu sem hefur verið í gangi á Hrafnistu. Að því erindi loknu kom Þröstur V. Söring framkvæmdastjóri fasteignasviðs Sjómannadagsráðs og sagði frá uppbyggingaráætlun sem Sjómannadagsráð er með í vinnslu. Valgeir Elíasson framkvæmdastjóri happdrættis DAS fór yfir starfsemi happdrættisins frá því hann tók við starfi framkvæmdastjóra á seinasta ári og að lokum flutti Haukur Arnar Birgisson stutt erindi um lögfræðileg málefni.

Í lok fundarins fóru fundarmenn í stutta skoðunarferð í nýbyggingunum við Skógarveg 4 og 10. Íbúðirnar á Skógarvegi 10 eru langt komnar og er áætlað að afhenda þær um miðjan júlí. Íbúðirnar í seinna húsinu verða afhentar í lok árs 2024.

 

 

Pin It on Pinterest

Share This