Nú líður senn að leiðarlokum hjá mér í störfum fyrir Sjómannadagsráð.  Eins og flestum mun kunnugt tilkynnti ég á haustfundi Sjómannadagsráðs í nóvember síðastliðnum að ég myndi ekki gefa kost á mér til áframhaldandi starfa fyrir Sjómannadaginn. Líklegast finnst sumum alveg nóg komið. Þegar ég lít til baka finn ég vel hversu mikinn þátt þetta starf hefur átt í lífi mínu og ekki bara mínu lífi heldur einnig fjöskyldu minnar sem alla tíð hefur verið mér samferða í málefnum Sjómannadagsins. Nú finn ég sjálfur að haustar að og kominn tími til að  víkja fyrir yngri menn og konur til að koma meir að þessum mikilvægu störfum.  Það er í raun einstakt að hafa fengið tækifæri til að vinna með öldruðu fólki öll þessi ár, fólki sem hefur lifað tímana tvenna og  oft hef ég fundið fyrir þakklæti frá fólki sem átt hefur góða daga á Hrafnistuheimilunum. Það hefur verið mér ómetanlegt.  Það leitar líka á hugann  samstarfsfólkið sem ég hef fengið  að vinna með.  Mér er nær að segja að hér hafi alla tíð verið valinn maður í hverju rúmi, líklega allt frá opnun Hrafnistu í Laugarási. Ég hóf sumarstörf hér á lóð Hrafnistu árið 1957 við gróðursetningu blóma og trjáa og að sjálfsögðu kynntist ég mörgu fólki hér, þó aðallega vistmönnum og í þeirra hópi voru margir kynlegir kvistir sem höfðu frá mörgu skemmtilegu  að segja.  Margir þeirra eru mér ógleymanlegir og undantekningalaust voru þeir sérlega góðir við þennan strákpatta sem lítið kunni til verka í garðinum.  Á þessum árum gekk nú ýmislegt á sem sumum myndi finnast sérstakt og mörgum er úr minni liðið nú.  Bíórekstur hafði hafist í borðsal Hrafnistu skömmu fyrr og stundum fékk maður að sjá prufusýningar í Laugarásbíó þegar rólegt var í blómaræktinni eða að dagsverki loknu. Stopp mitt í garðinum stóð nú ekki lengi en það hafði hafist að loknu vorprófi í gagnfræðaskóla og stóð yfir með hléum næsta ár ásamt ýmsum sendilstörfum fyrir heimilið. Margir kannast við fundarherbergi stjórnar Sjómannadagsráðs og skrifstofu formanns ráðsins.  Upphaflega átti þetta herbergi að vera reykingastofa heimilisfólks en,  kannski sem betur fer, náði aldrei þeim vinsældum sem að var stefnt í upphafi.  Í stað þess varð þetta herbergi sem vissulega er á einum besta stað hússins að filmusafni bíósins. Þar var gert við filmur og þær límdar saman til frekari notkunar.  Aðeins ein sýningarvél var til notkunar og kom þá í hlut sýningarmanna að vera fljótir til og lagfæra filmur  og þræða sýningarvélina aftur.  Þetta varð að gera í hléinu sem að mig minnir hafi verið 10 mínútur.  Sýningarklefinn var í lítilli skonsu á bak V-vegg borðsalarins sem þá var bíósalurinn nú Skálafell. Þar komst varla fyrir einn karl. Í þessari skonsu er nú salerni og geymsla fyrir jólaskraut og annað þessháttar fyrir Skálafell. Það var einstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til að sjá hvernig unnið var að málum á þessum tíma sérstaklega ef horft er til vinnubragða við sýningarhald í dag.  Að þessu sinni varð dvöl mín ekki löng. Mér skyldi komið til sjós til að koma mér til manns eins og þá var lenska.  Bræður mínir eldri en ég höfðu verið sendir til sjós og ég held að í minni fjölskyldu hafi það verið talin besta leiðin til þess að gera menn að mönnum,  helst á togara, kaupskip eða síld en togari var þó talinn besti kostur. Fyrst var ég messadrengur á Ms. Tungufossi og síðan háseti á togaranu MARZ sem var í eigu Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns. Þar um borð var úrvalsáhöfn undir stjórn Markúsar Guðmundssonar skipstjóra. Margir færeyingar voru í áhöfn og líka ungir menn á sama aldri og ég. Sumir urðu þjóðþekktir íslendingar eins og  Helgi H. Jónsson síðar fréttastjóri , Kristján T. Ragnarsson Schram læknir í New York og Óskar M. Ólafsson stýrimaður og skipstjóri í Vestmannaeyjum. Annar stýrimaður á b.v. Marz var þá einstakur öðlingsmaður  að öðrum ólöstuðum Brynjólfur Halldórsson síðar skipstjóri á b.v. Ögra RE.  Ég hóf störf á varðskipinu Óðni sem var nýkomið til landsins undir stjórn Eiríks Kristóferssonar skipherra.  Þar með var framtíð mín eiginlega ráðin með skólagöngu í stýrimannaskólanum ásamt þátttöku í þremur þorskastríðum. Á þessum árum var lítill tími til þátttöku í félagsmálum en þegar ég loks kom í land frá Landhelgisgæslunni 1986 hófust félagsmál á nýjan leik með kjöri það ár í Sjómannadagsráð.  Síðan hafa áhugamál mín að mestu nær eingöngu snúist um Sjómannadaginn og Hrafnistuheimilin.  Mér urðu þau málefni afar kær eins og fram hefur komið og ég tel það hafa verið mikið happ fyrir mig að vera síðan kosinn í stjórn Sjómannadagsráðs með þeim góðu mönnum sem þar voru fyrir og öllum þeim sem á eftir komu.  Hér hef ég eignast mína félaga og vini  sem og í Sjómannadagsráði.  Fengið tækifæri til að vinna að öllum þeim málum sem voru  á dagskrá og mér voru hugleikin  eins og byggingu nýrra heimila og við aðrar framkvæmdir. Það var mér mikið lán að vera í áhöfn með Guðmundi Hallvarðssyni við allar þær framkvæmdir sem staðið var að á þessu tímabili. Þó ég minnist sérstaklega á Guðmund Hallvarðsson formann Sjómannadagsráðs og forvera minn hef ég ekki gleymt þeim ágætu úrvalsmönnum sem sátu með okkur í stjórn og stóðu með okkur  í öllum ákvörðunum. Við höfum átt því láni að fagna að sjá árangur á flestum sviðum í rekstri þessa félags sem starfað hefur óslitið frá árinu 1937. Oft hefur gengið á ýmsu og sker stundum á bæði borð. Siglingin hefur verið á köflum áhættusöm en ávallt tekist að stýra fram hjá blindboðum þó nærri hafi verið og brotin leikið um rár og segl.  Ekkert af þessu hefði tekist ef ekki væri fyrir ágæti framúrskarandi áhafnar.  Sjómannadagsráð hefur, eins og ég hef áður tekið fram, haft á að skipa færasta starfsfólki í hverri grein sem völ hefur verið á og er enginn þar undanskilinn. Við höfum kappkostað að styðja vel við starfsfólk Hrafnistuheimilanna og notið þess í ríkum mæli.  Nú eru starfsmenn á launaskrá nálægt 1500 talsins og skjólstæðingar okkar rúmlega eitt þúsund.  Allt okkar starf snýst um það að þeim líði eins vel og nokkur er kostur Nú líður að opnun hins nýja hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík sem verður þá áttunda hjúkrunarheimilið undir stjórn Hrafnistu.  Um er að ræða afar glæsilegt heimili sem byggt hefur verið eftir okkar óskum og þar höfum við notið ómetanlegrar þekkingar og reynslu starfsfólks Hrafnistu.  Við bygginguna höfum við ennfremur notið starfsfólks Sjómannadagsráðs sem komið hefur að byggingarframkvæmdunum sjálfum með mikilli festu, þekkingu og áræðni.  Okkur er að takast það sem flestir hefðu talið vonlaust en það er að byggja hús sem stendur undir öllum væntingum og verður ódýrara en upphaflegar kostnaðaráætlanir gerðu ráð fyrir og munar þar tugum milljóna.  Margir eiga þar þátt svo sem starfsfólk Sjómannadagsráðs, starfsfólk Hrafnistu, byggingaraðilar og síðast en ekki síst hönnuðir hússins. Það er vert að taka það fram að allir hafa verið tilbúnir að taka á sig aukin verkefni og tíma til að svo gæti orðið.

Nú fer senn að ljúka tíma mínum hér. Hann er orðinn nokkuð langur og tími til að draga sig í hlé og snúa sér að öðru.  Ég hef nú verið fulltrúi í Sjómannadagsráði í 34 ár, 27 ár í stjórn ráðsins og 21 ár í ritstjórn Sjómannadagsblaðsins.  Nú gefst hinsvegar tími til að hefja aftur störf við  það sem ég  upphaflega vann við hér, en það er að rækta blóm og tré og grúska í moldinni, þó væntanlega verði það ekki í Laugarási.

Íbúum Hrafnistu, starfsfólki Hrafnistuheimilanna, Sjómannadagsráðs, happdrættis DAS, Naustavarar og Ölduvarar færi ég fyrir hönd stjórnar Sjómannadagsráðs alúðarþakkir með ósk um að okkur öllum farnist vel á nýju ári.

Hálfdan Henrysson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.

 

Svipmyndir frá seinustu árum

  

  

 

Pin It on Pinterest

Share This