Úthlutað var einni milljón króna úr Rannsóknarsjóði Hrafnistu í dag þegar þrjú verkefni hlutu styrki úr sjóðnum. Markmið sjóðsins, sem er í eigu Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins, eiganda Hrafnistuheimilanna, er að stuðla að nýjungum og þróun í málefnum aldraða. Sjóðurinn er opinn öllum, einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, sem að stunda rannsóknir, formlegt nám eða annað sem stuðlað getur að jákvæðri þróun í málaflokknum.
Berglind Soffía Blöndal næringarfræðingur og doktorsnemi í næringarfræði hlaut styrk að upphæð 500.000 krónur. Rannsóknarverkefni hennar ber heitið Næringarmeðferð aldraðra einstaklinga eftir útskrift af Landspítala Háskóla Sjúkrahúsi. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort útskrift aldraðra einstaklinga samkvæmt Nutrition Care Process meðferðaráætlun ásamt heimsendum mat, sérstaklega samsettum með þarfir aldraðra í huga, hafi áhrif á næringarástand, vöðvastyrk, hreyfifærni, lífsgæði og endurinnlögn á sjúkrahús eða dauða eftir útskrift af öldrunardeild, samanborið við viðmiðunarhóp sem er útskrifaður á hefðbundinn hátt, og viðmiðunarhóp sem væri byggður á sögulegum gögnum frá því áður en útskriftar verkferillinn sem nú er farið eftir var tekin í notkun 2016. Rannsóknin mun gefa upplýsingar um vannæringu aldraðra í heimahúsum og hvaða aðferðum er best að beita til að sporna gegn versandi næringarástandi þeirra. Niðurstöður munu breyta verkferlum hvað varðar útskrift aldraðra einstaklinga og opinberum ráðleggingum um þjónustu við þennan viðkvæma hóp ásamt því að finna leiðir til þess að auka lífsgæði aldraðra.
 
Elfa Þöll Grétarsdóttir hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í hjúkrun aldraðra hlaut styrk að upphæð 300.000 krónur. Verkefni hennar ber heitið Þýðing og forprófun á lífsgæðamælikvarðanum: The quality of life in late-stage dementia (QUALID). Markmið verkefnisins er að leggja grunn að markvissum leiðum til að meta árangur af breyttu verklagi eins og Namaste nálgun felur í sér. Namaste umönnun hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi sem ný nálgun í umönnun einstaklinga með heilabilun. Markmið þessarar nálgunar er að bæta lífsgæði einstaklinga með langt genga heilabilun með persónumiðaðri vellíðunarmeðferð. Lífsgæðamælikvarðinn mun nýtast öllum þeim sem starfa við umönnun og þjónustu við einstaklinga með heilabilun.
 
Hjúkrunarheimilin Hulduhlíð og Uppsalir í Fjarðarbyggð hlutu styrk að upphæð 200.000 krónur. Heiti vekefnisins er Ungur nemur gamall temur. Markmið verkefnisins er að fá grunnskólabörn í heimsókn á hjúkrunarheimilin og taka þar þátt í lestrarátaki. Börnin æfa sig í lestri með því að lesa fyrir íbúa sem veita þeim leiðsögn á meðan á lestrinum stendur. Margvíslegur ávinningur verður af verkefninu; börnin eflast í lestri, íbúar fá heimsóknir grunnskólabarna sem dregur úr einveru auk þess sem þeir taka þátt í uppbyggingarverkefni með börnum. Með verkefninu er verið að tengja saman kynslóðir, skapa notalegan vettvang til eflingar á yngstu og elstu kynslóðum samfélagsins og fá ungviðið í reglulegar heimsóknir.

Pin It on Pinterest

Share This