Sjómannadagsráð hefur nú afhent Hrafnistu við Laugarás nýtt og stórglæsilegt stóreldhús til afnota fyrir starfsemina, þar sem unnt er að matreiða allt að tvö þúsund máltíðir á dag fyrir öll Hrafnistuheimilin á höfuðborgarsvæðinu. Eldhúsið við Laugarás, sem í upphaflegri mynd tók til starfa á sjómannadaginn samfara vígslu fyrsta Hrafnistuheimilisins árið 1957, er með stærstu stóreldhúsum landsins, þar sem raforkunotkun er svipuð og hjá 500 vísitölufjölskyldum.
Aukin framleiðsluafköst
Gólfflötur nýja eldhússins er í heild 1.050 fermetrar eftir tæplega 400 fermetra stækkun. Auk stækkunar og skipulagsbreytinga á nýtingu rýmisins voru nær öll tæki til starfseminnar endurnýjuð eins og nauðsynlegt var vegna aukinna framleiðsluafkasta og hagkvæmni í rekstri, en í byrjun næsta árs tekur áttunda Hrafnistuheimilið til starfa við Sléttuveg í Fossvogi sem einnig mun fá máltíðir fyrir íbúa og starfsfólk sendar frá eldhúsinu við Laugarás. Fjárfesting Sjómannadagsráðs vegna verkefnisins nemur vel á sjötta hundrað milljónum króna sem aflað var að mestu með arði frá Happdrætti DAS, sjálfsaflafé úr eigin sjóðum félagsins auk framlags frá Framkvæmdasjóði aldraðra.
Reyndi á útsjónarsemina
Framkvæmdir við breytingar og stækkun eldhússins hófust í ársbyrjun og reyndu þær nokkuð á útsjónarsemi fasteignadeildar Sjómannadagsráðs, hönnuða og allra þeirra verktaka sem komu að verkefninu enda ekki einfalt mál að endurnýja og breyta rúmlega sextíu ára húsnæði án þess að fórna þeim góða andblæ og fallega yfirbragði sem elsta Hrafnistuheimilið býr yfir. Þá reyndi verkefnið einnig nokkuð á daglega starfsemi á heimilinu, þar sem nauðsynlegt var að setja upp bráðabirgðaeldhús á Hrafnistu í Hafnarfirði auk þess sem verklegum framkvæmdum fylgir ávallt skert hljóðvist upp að vissu marki.
Hækkandi hlutfall sérfæðis
Starfsemi eldhússins gegnir mikilvægu hlutverki í rekstri Hrafnistu, en þar er lögð áhersla á fjölbreyttan og næringarríkan heimilismat alla daga ársins með á annað hundrað rétti á matseðli svo unnt sé að mæta fjölbreyttum óskum og þörfum matargesta. Í eldhúsinu starfa um 20 starfsmenn sem einnig sjá um sérfæði, en hlutfall þess fer vaxandi, m.a. vegna aðstæðna heimilisfólks á Hrafnistu.
Margir komu að framkvæmdum við stóreldhúsið
Allur undirbúningur og umsjón með verkefninu var á höndum starfsfólks fasteignadeildar Sjómannadagsráðs, sem naut liðsinnis THG arkitekta og verkfræðihönnuða Mannvits og Eflu. Í kjölfar tilboðs var samið við JE Skjanna sem aðalverktaka verkefnisins auk undirverktaka frá Rafmiðlun, Blikksmiðnum, Landslögnum, Ísfrosti, Borgarvirki, Fastusi, Bakó Ísberg og Nesvélum. Sjómannadagsráð þakkar öllum sem komu að uppbyggingu nýja eldhússins kærlega fyrir farsælt samstarf og vill einnig koma á framfæri þökkum til íbúa og starfsmanna Hrafnistu, sem hafa sýnt mikinn skilning og þolinmæði á meðan framkvæmdunum stóð.
Hlutverk Sjómannadagsráðs
Hlutverk Sjómannadagsráðs er tvíþætt. Annars vegar er hlutverk þess að annast hátíðarhöld sjómannadagsins ár hvert á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar að afla fjár til að byggja íbúðir og aðstöðu fyrir aldraða ásamt því að veita þeim fjölbreytta þjónustu. Þessi grunngildi hafa staðið óhögguð í rúmlega áttatíu ára sögu Sjómannadagsráðs sem stofnað var 1937. Sjómannadagsráð rekur í dag sjö starfsstöðvar í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins; Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Reykjanesbæ, bæði á heimilum Hrafnistu og í leiguíbúðum Naustavarar sem reist hafa verið í næsta nágrenni Hrafnistuheimilanna. Daglega njóta rúmlega eitt þúsund íbúar og dagdvalargestir þjónustu Hrafnistu auk leigjenda Naustavarar og á næstu mánuðum bætast á þriðja hundrað manns í hópinn þegar Hrafnista á Sléttuvegi í Fossvogi tekur til starfa og íbúar flytjast inn í nýjar íbúðir Naustavarar við hlið heimilisins.
Hér fyrir neðan eru nokkar myndir frá framkvæmdatímanum.