Miðvikudaginn 22. janúar var undirritaður samningur milli Faxaflóahafna, Brims hf., Concept viðburða og Sjómannadagsráðs um framkvæmd Hátíðar hafsins 2020.
Hátíð hafsins er fjölskylduhátíð sem haldin er Sjómannadagshelgina og hefur verið haldin síðan 2002. Hátíðin samanstendur af tveimur hátíðardögum; Hafnardeginum sem er á laugardeginum og Sjómannadeginum sem er að jafnaði fyrsta sunnudag í júní nema hann beri upp á Hvítasunnudag, þá færist hann yfir á næsta sunnudag á eftir eins og gerist í ár.
Á Hátíð hafsins er lögð áhersla á skemmtun fyrir alla fjölskylduna í bland við fróðleik um hafið, matarmenningu hafsins, sjómennsku, skip, sjómenn og ýmislegt annað sem viðkemur hafinu.
Sjómannadagurinn er lögbundinn frídagur sjómanna og er haldið upp á hann til að efla samhug meðal sjómanna og auka samstarf milli hinna ýmsu starfsgreina sjómannastéttarinnar. Einnig er haldið upp á Sjómannadaginn til að kynna þjóðinni áhættusöm störf sjómanna og mikilvægi starfanna í þágu þjóðfélagsins. Það er m.a. gert með því að heiðra minningu látinna sjómanna og þá sérstaklega þeirra sem hafa látist við störf sín, en ekki síður með því að heiðra fyrir björgun mannslífa og farsæl félags- og sjómannsstörf.
Sjómannadagurinn á þessu ári fer fram 7. júní og mun Hátíð hafsins því standa yfir helgina 6. – 7. júní við höfnina í Reykjavík eins og undanfarin ár. Concept viðburðir hafa haldið utan um skipulag hátíðarinnar og Sjómannadagsráð ásamt Faxaflóahöfnum og Brimi hf. hafa verið öflugir stuðningsaðilar hennar. Sjómannadagsráð þakkar stuðninginn og gott samstarf og hlakkar til að gera hátíðina í ár jafn glæsilega og hún hefur verið undanfarin ár.
Myndin var tekin við undirritunina og á henni eru frá vinstri: Sigurður Garðarsson Sjómannadagsráði, Ægir Páll Friðbertsson Brimi hf., Erna Kristjánsdóttir Faxaflóahöfnum og Dagmar Haraldsdóttir Concept viðburðum.