Framkvæmdir verktaka á vegum Sjómannadagsráðs við byggingu nýs Hrafnistuheimilis og þjónustumiðstöðvar ganga sinn gang eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi þar sem byggingarnar rísa óðum í átt til himins. Gert er ráð fyrir að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun fljótlega á nýju ári og þjónustumiðstöðin fljótlega í kjölfarið. Einnig munu fjölbýli með öryggis- og þjónustuíbúðum Naustavarar rísa í næsta nágrenni.
Sjómannadagsráð mun byggja, eiga og reka fyrirhugaða þjónustumiðstöð sem samtengd verður Hrafnistuheimilinu og þremur nýjum fjölbýlishúsum með 140 íbúðum Naustavarar sem leigðar verða á almennum markaði fyrir eldra fólk. Áhersla verður lögð á að skapa nokkurs konar miðstöð heilbrigðs lífs, þar sem boðið verður upp á aðgang að fjölbreyttri dagskrá og þjónustu bæði fyrir þá sem vilja auka eigin færni og þá sem vilja bregðast við minnkandi færni eða heilsu.
Reykjavíkurborg mun leigja hluta þjónustumiðstöðvarinnar auk þess sem aðrir sem veita þar sérhæfða þjónustu, svo sem á sviði veitinga, fræðslu, sjúkraþjálfunar, heilsueflingar, afþreyingar og menningar, verða þar einnig með aðstöðu.
Í fjölbýlishúsum Naustavarar verða leigðar íbúðir í nokkrum stærðarflokkum. Algengustu stærðir verða 50 til 70 fermetra íbúðir en einnig 70 til 85 fm2 hjónaíbúðir auk nokkurra enn stærri íbúða. Leiguíbúðirnar verða sérhannaðar fyrir eldra fólki sem vill búa sjálfstætt en njóta nálægðar og aðgangs að þeirri þjónustu sem veitt verður á svæðinu.